Urðum ofan á í slagsmálunum

Arna Eiríksdóttir átti stórleik með FH gegn Keflavík í kvöld.
Arna Eiríksdóttir átti stórleik með FH gegn Keflavík í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Við byrjuðum af rosalega miklum krafti, náðum inn tveimur mörkum snemma í fyrri hálfleik og mér fannst þetta frábært í kvöld,“ sagði Arna Eiríksdóttir, sem átti drjúgan þátt í 3:1 sigri FH á Keflavík þegar liðin mættust á Kaplakrika í kvöld þegar leikið var í 4. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta, stóð vaktina með sóma og vörninni og skoraði svo mark.

Eftir þessa byrjun slökuðu FH-konur aðeins á og stundum var eins og FH ætlaði sér að halda fengnum hlut en Arna var ekki alveg sammála.  „Já og nei, gæti verið aðeins í lokin vegna þess að Keflavík pressaði okkur ekkert svo við spiluðum bara boltanum á milli okkar og héldum honum vel.  Í seinni hálfleik voru þetta bara slagsmál og við urðum ofan á í þeim. Mér fannst við svo hafa tök á leiknum sem eftir var af fyrri hálfleik og síðari hálfleikur fannst mér aðeins jafnari en svo skorum við þetta mark í lokin og gengum frá leiknum.“

Með sigrinum lyfti FH sér af botni deildarinnar upp í 8. sætið. „Við vissum að þetta væri rosalega mikilvægur leikur, höfum verið að leita að fyrsta sigrinum og gott að fá hann hérna í okkar fyrsta heimaleik.  Þetta var leikur sem við þurftum að vinna og við gerðum það sem þurfti til þess,“  sagði Arna.

Fyrirliðinn kominn í gang

Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir fyrirliði FH hefur glímt við slæm ökklameiðsli og verið frá í 8 vikur en stóð nú vaktina fram í síðari hálfleik.  „Ég er að koma til núna, fékk þrjátíu mínútur í síðasta leik og byrjaði inná núna, viðurkenni að það var erfitt að horfa bara á leikina en ég treysti stelpunum hundrað prósent enda kemur alltaf maður í manns stað,“ sagði fyrirliðinn eftir leikinn.

„Mér fannst þetta alveg klikkuð byrjun, við náðum einhvern veginn að gíra okkur alveg ótrúlega rétt í fyrir leikinn og komum vel stemmdar í hann, sem skilaði sér greinilega fyrstu tuttugu mínúturnar. Við getum unnið með þennan sigur, það er á hreinu.  Nú er bara að fagna en á morgun fara að hugsa um næsta leik, hvað við ætlum að gera til að sigra hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert