Með rifinn liðþófa

Nacho Heras í leik með Keflavík gegn Leikni úr Reykjavík …
Nacho Heras í leik með Keflavík gegn Leikni úr Reykjavík á síðasta tímabili. mbl.is/Arnþór Birkisson

Nacho Heras, varnarmaður karlaliðs Keflavíkur í knattspyrnu, er með rifinn liðþófa og brjóskskemmdir í hné og þarf því að leggjast undir hnífinn.

Óttast var að krossband hafi slitnað og þó að niðurstaða úr myndatöku bendi til þess að það hafi ekki gerst greinir Fótbolti.net frá því að Heras þurfi að fara í aðra myndatöku þegar bólgan í hnénu hefur hjaðnað betur, til þess að fá endanlega úr því skorið.

Því gengst Heras ekki undir skurðaðgerð tafarlaust en sé krossbandið ekki slitið verður Spánverjinn frá keppni í þrjá mánuði að aðgerðinni lokinni.

Ef svo óheppilega vill til að krossbandið reynist slitið má Heras eiga von á níu til tólf mánaða fjarveru.

Hann meiddist strax í upphafi leiks í 0:2-tapi Keflavíkur fyrir HK í Bestu deildinni á sunnudag, var borinn sárþjáður af velli og fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert