Rodri áfram á Akureyri

Rodrigo Gómez í leik með KA.
Rodrigo Gómez í leik með KA. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Spænski knattspyrnumaðurinn Rodrigo Gómez hefur samið að nýju við KA-menn og leikur áfram með þeim næstu tvö tímabil, eða til ársloka 2025.

Rodri, eins og hann er ávallt kallaður, er 34 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið hér á landi í níu ár. Hann spilaði í neðri deildum í heimalandi sínu með Orihuela og Torrevieja, og kom til Sindra á Hornafirði fyrir tímabilið 2014.

Eftir eitt ár þar í 2. deildinni lék hann með Grindavík frá 2015 til 2019, tvö ár í 1. deild og síðan þrjú ár í úrvalsdeildinni. Hann spilar nú sitt fjórða tímabil með KA þar sem Rodri er í lykilhlutverki á miðjunni.

Rodri hefur spilað 111 leiki í efstu deild og skorað í þeim 5 mörk og þá á hann að baki 56 leiki og fimm mörk í 1. og 2. deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert