KR-ingar, sem hafa ekki skorað mark í fimm leikjum í röð í Bestu deild karla í fótbolta, skoruðu fjögur mörk í kvöld þegar þeir tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar með því að sigra Fylkismenn í Árbænum, 4:3.
Kristján Flóki Finnbogason og Jóhannes Kristinn Bjarnason komu KR í 2:0 eftir hálftíma. Benedikt Daríus Garðarsson minnkaði muninn fyrir Fylki en Aron Þórður Albertsson kom KR í 3:1 rétt fyrir hlé.
Pétur Bjarnason minnkaði muninn fyrir Fylki á 55. mínútu og tuttugu mínútum síðar jafnaði Benedikt Daríus með sínu öðru marki, 3:3.
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði síðan sigurmark KR-inga á 82. mínútu, 4:3.