Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, hefur vísað máli Kjartans Henry Finnbogasonar, sóknarmanns FH, til aganefndar sambandsins.
Kjartan var mikið í fréttum eftir leik Víkings og FH í Bestu deild karla í fótbolta á dögunum. Kjartan missti þá stjórn á sér og fékk mikla gagnrýni fyrir hegðun sína í leiknum.
Í fyrri hálfleik leiksins sparkaði Kjartan í átt að andliti Birnis Snæs Ingasonar og var heppinn að hafa ekki stórslasað Birni. Einnig gaf hann Nikolaj Hansen olnbogaskot inni í vítateig FH og hefði getað fengið á sig vítaspyrnu og mögulega verið rekinn útaf í þokkabót.
Fréttavefurinn 433.is greinir frá því að aganefnd KSÍ muni taka við máli Kjartans Henry en ekki liggur fyrir hvort máli hans hafi verið vísað þangað vegna sparksins, olnbogaskotsins eða jafnvel vegna beggja atvika.
Kjartan Henry steig fram eftir leikinn og birti afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlinum Twitter.
„Eftir að hafa séð þessi leiðinlegu atvik aftur að þá sé ég mikið eftir þessu „pirrings“ sparki í átt að Birni. Hefði getað endað illa, gerði það ekki en á aldrei að eiga sér stað. En það að ég hafi viljandi gefið Nico olnbogaskot er svo fjarri lagi, ég var að dekka einn sterkasta framherja deildarinnar og reyna að passa að hann kæmist ekki fram fyrir mig. Sem betur fer slapp hann með blóðnasir. Annað eins hefur gerst á fótboltavelli. Óska Víkingum nær og fjær til hamingju með sigurinn.“ skrifaði Kjartan í færslu á Twitter.
Aganefnd KSÍ mun nú taka málið fyrir og taka ákvörðun um hvort úrskurða eigi Kjartan í leikbann.