KA er komið í átta liða úrslitin í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir öruggan sigur á HK, 3:1, í viðureign Bestudeildar-liðanna í Kórnum í Kópavogi í dag.
KA náði undirtökunum strax á 6. mínútu þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson tók aukaspyrnu og skaut í samherja sinn Ívar Örn Árnason, og þaðan í netið.
Tíu mínútum síðar fékk KA vítaspyrnu og Hallgrímur skoraði úr henni og staðan var þá orðin 2:0 eftir 16 mínútur.
Hallgrímur gat skorað sitt annað mark á 50. mínútu þegar hann tók aðra vítaspyrnu en að þessu sinni varði Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, frá honum.
Bjarni Aðalsteinsson skoraði síðan þriðja mark KA á 85. mínútu með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu, 3:0.
Örvar Eggertsson náði að koma HK á blað með marki í uppbótartímanum og lokatölur urðu því 3:1.