Stjarnan örugglega áfram í bikarnum

Stjörnumenn fagna marki í leiknum í dag.
Stjörnumenn fagna marki í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan vann öruggan fjögurra marka sigur á Keflavík í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta í dag.

Óhætt er að segja að Stjarnan hafi verið með yfirburði frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu í dag og séu verðskuldað komnir áfram í 8-liða úrslit.

Adolf Daði Birgisson skoraði fyrsta mark Stjörnunnar á 16. mínútu leiksins þegar hann fylgdi eftir skoti Eggerts Arons Guðmundssonar og kom boltanum yfir marklínuna.

Stjarnan komst í 2:0 forystu á 40. mínútu þegar Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, leikmaður Keflavíkur, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Hann tæklaði þá sendingu Ísaks Andra Sigurgeirssonar í eigið mark.

Adolf Daði Birgisson skorar hér fyrsta mark leiksins.
Adolf Daði Birgisson skorar hér fyrsta mark leiksins. mbl.is/Óttar Geirsson

Eggert Aron Guðmundsson skoraði svo þriðja mark Stjörnunnar á 65. mínútu. Hann fékk þá frábæra sendingu inn á teiginn frá Róberti Frosta Þorkelssyni og kláraði færi sitt vel með góðu skoti í nærhornið.

Það var síðan Emil Atlason sem skoraði fjórða mark Garðbæinga á 81. mínútu. Stjarnan átti þá aukaspyrnu sem var send inn á teig Keflvíkinga, þar var Emil mættur og skoraði. Kærkomið mark hjá Emil sem hefur verið lengi frá vegna meiðsla.

Afar sannfærandi sigur Stjörnunnar staðreynd en það gengur hvorki né rekur hjá Keflavík þessa dagana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert