Dregið var til átta liða úrslitanna í bikarkeppni karla í fótbolta, Mjólkurbikarnum, núna í hádeginu.
Sex lið úr Bestu deild karla eru eftir í keppninni, Breiðablik, FH, KA, KR, Stjarnan og svo bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík sem hafa unnið keppnina þrisvar í röð.
Hin tvö liðin koma úr 1. deildinni, Grindavík og Þór, en Grindvíkingar gerðu sér lítið fyrir og slógu Valsmenn út úr keppninni í gær.
Þessi lið mætast í 8-liða úrslitum:
Þór - Víkingur R.
KR - Stjarnan
Breiðablik - FH
KA - Grindavík
Tveir af fjórum leikjanna fara því fram á Akureyri því bikarmeistarar Víkings heimsækja Þórsara og KA tekur á móti öflugu 1. deildarliði Grindvíkinga.
Leikirnir fara fram dagana 5. og 6. júní.