Ég er stoltur af liðinu

Sindri Þór Guðmundsson með boltann í leiknum í kvöld. Elfar …
Sindri Þór Guðmundsson með boltann í leiknum í kvöld. Elfar Freyr Helgason sækir að honum. mbl.is/Óttar Geirsson

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var nokkuð sáttur með stigið eftir markalaust jafntefli við Val á Origo-vellinum á Hlíðarenda í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við erum ánægðir með eitt stig hér á útivelli gegn mjög sterku liði Vals, sem hefur verið feikisterkt í sumar. Við erum með hálf vængbrotið lið, það vantar menn vegna meiðsla og svona en við sýndum bara mjög góðan dugnað, skipulag og aga í kvöld sem skilaði okkur stigi.“

Sigurður var jafnframt ánægður með frammistöðuna en Keflavíkurliðið varðist mjög vel lengstan kafla leiksins.

„Heilt yfir er ég mjög ánægður með frammistöðuna. Auðvitað eru alltaf einhverjir punktar hér og þar sem maður getur unnið með og bætt en heilt yfir var ég mjög ánægður.“

Það var talsverður vindur á Hlíðarenda á meðan leik stóð en Sigurði fannst hann ekki hafa nein allt of mikil áhrif á leikinn.

„Mér fannst það nú ekki. Maður spilaði með honum annan hálfleikinn og á móti honum hinn svo það jafnast út. Mér fannst hann ekki hafa nein afgerandi áhrif á leikinn.“

Eins og Sigurður segir hafa mikil meiðsli herjað á Keflvíkinga en í kvöld fengu þeir þó einhverja leikmenn til baka.

„Vonandi horfir til betri tíma. Það er leiðinlegt að tala um hverjir eru ekki með eftir hvern einasta leik og maður ætti kannski meira að einbeita sér á að tala um þá sem voru og eru með. Í dag voru flottir Keflvíkingar inni á vellinum sem stóðu saman og börðust vel sem liðsheild. Það var erfitt að spila á móti okkur því menn voru að vinna fyrir hvorn annan, og það eigum við klárlega að taka með okkur í næsta leik og gera enn betur þar.

Við eigum Breiðablik næst, það er hörkuleikur og vonandi náum við að bæta enn frekar ofan á frammistöðuna í kvöld.“

Keflavík er með fimm stig í næst neðsta sæti deildarinnar en Sigurður segist þó vera bjartsýnn fyrir framhaldinu.

„Já maður verður alltaf að vera bjartsýnn. Maður verður bjartsýnni þegar við verðum með alla heila en það er mjög sjaldan í fótboltaliði. Þeir sem komu inn í dag stóðu sig bara feikivel og ég er stoltur af liðinu. Þetta voru góð úrslit.“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert