„Við spiluðum vel og áttum góðan leik, líka í seinni hálfleik með vindinn framan í okkur,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, í samtali við mbl.is eftir 0:2-tap liðsins gegn Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.
Þrátt fyrir tapið var Hallgrímur sáttur við ýmislegt í leik síns liðs, en hann var skiljanlega svekktur með byrjunina í seinni hálfleik. Steinþór Már Auðunsson í marki KA gaf víti strax í byrjun hálfleiksins, eftir að hann hafði sjálfur átt slaka sendingu.
„Við gefum víti eftir 40 sekúndur, sem er ekki klókt. Við vorum að reyna að spila í eigin vítateig, sem var óþarfa áhætta þegar seinni hálfleikur er varla byrjaður. Það breytir leiknum. Við fáum svo dauðafæri til að skora og hefðum jafnvel átt að fá eitt víti. Þeir skora svo 2:0, sem var einstaklingsframtak og draumamark. Mörkin skildu að, en frammistaðan var góð að mínu mati,“ sagði Hallgrímur og hélt áfram:
„Við vorum að spila boltanum vel og vorum góðir í návígunum og pressan var eins og við vildum. Við þorðum að spila boltanum, það eru ekki öll lið sem koma hingað og þora að spila boltanum á móti Breiðabliki. Við hefðum getað skorað mörk í þessum leik, en fáum á okkur eitt frábært mark og annað sem var algjör óþarfi.“
Hallgrímur vildi sjá sitt lið nýta fínar stöður í seinni hálfleiknum betur. „Við þurfum að vera beinskeyttari í fyrri hálfeik. Við erum með vindi þá, en létum boltann ganga of mikið áður en við komumst inn í teig. Svo vantaði meira drápseðli til að skora. Allt annað var flott.“
KA hefur nú tapað tveimur leikjum í röð í deildinni, án þess að skora mark. Þess á milli vann liðið 3:1-útisigur á HK í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
„Hlutir eru fljótir að breytast í fótbolta. Ég er að hugsa um að frammistaðan hafi verið góð núna og í síðasta leik. Við tökum það með okkur á móti Víkingi heima. Við töpuðum mjög naumt fyrir þeim seinast,“ sagði Hallgrímur.