FH-ingar ósáttir við vinnubrögð Klöru

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnudeild FH sendi í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir yfir vonbrigðum með vinnubrögð Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, í aðdraganda þess að Kjartan Henry Finnbogason, framherji liðsins, var úrskurðaður í eins leiks bann fyrir brot á Nikolaj Hansen, leikmanni Víkings úr Reykjavík, í leik liðanna í Bestu deildinni um síðustu helgi.

Dómari leiksins sá ekki atvikið og vísaði Klara því til aga- og úrskurðarnefndar, en til þess hefur framkvæmdastjóri val. Nýtti nefndin myndbandsupptöku til að úrskurða Kjartan í bann, en knattspyrnudeild FH er ósátt með vinnubrögð Klöru í málinu og kalla þau hlutdræg.

Í greinargerð sem Klara sendi aga- og úrskurðarnefndinni kemur fram að Kjartan hafi sýnt óíþróttamannslegan og hættulegan leik. FH-ingar eru allt annað en sáttir við það orðalag og saka Klöru um ósamræmi í málskotsheimild og að taka afstöðu í málinu.

Þá gagnrýnir knattspyrnudeild FH að Kjartan hafi yfir höfuð farið í bann, þar sem ekki var hægt að fullyrða að Kjartan hafi viljandi veitt Hansen högg og ekki eigi að refsa leikmönnum fyrir alvarleg agabrot, ef þau eru ekki framin af ásetningi.

Knattspyrnudeildin segir fjölmiðlaumfjöllun einnig hafa haft áhrif á niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar. Yfirlýsinguna má sjá í færslu FH á Twitter hér fyrir neðan. 

Kjartan Henry Finnbogason í leiknum gegn Víkingi.
Kjartan Henry Finnbogason í leiknum gegn Víkingi. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert