Gísli yfirburðamaður á vellinum

Gísli Eyjólfsson í leiknum í kvöld.
Gísli Eyjólfsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var hinn kátasti með frammistöðu liðsins í 2:0-heimasigrinum á KA í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Bæði mörk Breiðabliks komu í seinni hálfleik, þar sem Kópavogsliðið var mun sterkari aðilinn.

„Vindurinn spilaði því miður stór hlutverk í þessum leik og það var erfitt að spila í fyrri hálfleik. Mér fannst við samt ná að skapa nokkur færi og nokkra möguleika. Mér fannst við svo mikið sterkari aðilinn í seinni hálfleik.

„Þá var auðveldara að spila undan vindinum og auðveldara að koma sér upp völlinn. Mér fannst við góðir með og án boltans. Við vorum sterkir þegar við töpuðum honum. Við vorum einnig ógnandi í föstum leikatriðum og þetta var virkilega flott frammistaða. Ég er mjög sáttur,” sagði Óskar um leikinn við mbl.is.

Breiðablik skoraði tvö mörk á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks og tryggði sér þannig sigurinn. Höskuldur Gunnlaugsson gerði fyrra markið úr víti sem Gísli Eyjólfsson náði í og Gísli skoraði seinna markið sjálfur með glæsilegu skoti, eftir frábæran sprett.

„Við vildum byrja sterkt og taka öflugt fyrsta skref í seinni. Við höfum verið gott pressulið og markið kemur úr víti eftir pressu frá Gísla. Hann er einn besti pressuleikmaður deildarinnar og einn albesti leikmaður deildarinnar í dag. Við vorum á tánum og vorum aggressívir. Það er það sem gerir Breiðabliksliðið gott; dugnaður og mikil ákefð,“ sagði hann.

Óskar sagði markið hans Gísla vera það næstbesta sem hann hefur skorað fyrir Breiðablik. „Ég myndi halda að þetta væri númer tvö. Markið á Víkingsvelli árið 2020 var betra. Erfiðleikastigið á þessu marki var samt mjög hátt. Gísli var yfirburðamaður á vellinum og hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar í sumar,“ sagði Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert