Valur og Keflavík gerðu markalaust jafntefli á Origo-vellinum á Hlíðarenda í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur og var ekki mikið um færi. Valsmenn stýrðu ferðinni stærsta hluta hálfleiksins en illa gekk þó á síðasta þriðjungnum sóknarlega. Liðið var töluvert meira með boltann en Keflvíkingar voru þéttir til baka og reyndu að beita skyndisóknum.
Það var nokkuð mikill vindur úr suðri en Valsmenn léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik. Hafði hann talsverð áhrif á leikinn en margar sendingar heimamanna enduðu aftur fyrir endamörk eða í höndunum á Mathias Rosenörn, markverði Keflvíkinga.
Tryggvi Hrafn Haraldsson fékk langbesta færi fyrri hálfleiksins strax á fimmtu mínútu en Andri Rúnar Bjarnason fann hann þá aleinan við markteigslínu en Skagamaðurinn Tryggvi hitti boltann afleitlega og setti hann langt fram hjá.
Seinni hálfleikurinn spilaðist mjög svipað þeim fyrri en heimamenn héldu áfram að stýra ferðinni á meðan gestirnir úr Keflavík lágu til baka og reyndu að beita skyndisóknum. Þegar korter var eftir af leiknum fékk Andri Rúnar Bjarnason sannkallað dauðafæri eftir frábæra sókn Vals en Mathias Rosenörn varði frá honum. Tryggvi Hrafn skipti boltanum þá frá vinstri til hægri í hlaup Birkis Más Sævarssonar, sem gerði allt rétt og lagði boltann í fyrstu snertingu á Andra en Rosenörn varði vel.
Tryggvi Hrafn fékk svo annað gott færi á 85. mínútu en Valsmenn spiluðu boltanum þá virkilega vel sín á milli áður en þeir fundu Andra Rúnar hægra megin í teignum. Hann renndi boltanum út á vítapunkt þar sem Tryggvi kom á ferðinni en hitti ekki í markið úr ljómandi stöðu.
Að lokum fór það svo að hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið og markalaust jafntefli var því niðurstaðan. Valur er því með 19 stig eftir átta umferðir í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Víkingi sem lagði HK í kvöld. Keflavík er með fimm stig í 11. sæti.