Færeyski landsliðsmaðurinn Gunnar Vatnhamar var ánægður með að Víkingar skyldu ná að vinna sinn áttunda leik í röð í Bestu deild karla í fótbolta þegar þeir sigruðu HK 2:1 í Kórnum í gærkvöld.
Víkingar höfðu talsverða yfirburði í fyrri hálfleik en lentu í meira basli með nýliðana í síðari hálfleiknum.
„Já, þetta var er einmitt þannig. Við áttum góðar 45 mínútur í fyrri hálfleik, en þeir komu hins vegar afar kraftmiklir inn í seinni hálfleik og við áttum í mestu vandræðum með að koma okkur aftur inn í leikinn. En þegar við náðum því og höfðum skorað annað mark fengum við rauða spjaldið,“ sagði Gunnar við mbl.is eftir leikinn.
„Við vörðumst vel á lokakaflanum í leiknum, þeir fengu eitt gott færi, ásamt því að skora þetta mark sem var mjög heimskulegt af okkar hálfu. Okkur tókst að halda þetta út en þurfum greinilega að vinna betur í ákveðnum hlutum.
Lokakaflinn var að sjálfsögðu erfiður, manni færri, og þeir settu mikla pressu á okkur með löngum sendingum, en okkur tókst að ráða við þær auk þess sem við erum með flottan markmann svo það gekk allt upp,“ sagði Gunnar.
Hann kom til Víkinga rétt áður en tímabilið hófst, eftir að hafa leikið allan ferilinn með Víkingi í Götu í færeysku úrvalsdeildinni og kvaðst vissulega vera afar sáttur við þessa góðu byrjun með nýju félagi.
„Þetta er búið að vera frábært, við höfum staðið okkur vel, spilað mjög vel og æft vel. Það er magnað starfslið í kringum Víkingsliðið. Það var skrýtið fyrir mig að spila innanhúss í kvöld, það hef ég aldrei gert áður en við unnum og ég er ánægður með það.
Það eru dálítið viðbrigði að koma hingað frá Færeyjum, það er meiri hraði í fótboltanum hérna og þetta er erfiðari deild, en ég er mjög ánægður með skiptin og allir hjá Víkingi hafa hjálpað mér mikið.
Ég er nokkuð sáttur með byrjunina. Auðvitað vill maður alltaf gera betur, við hefðum til dæmis átt að halda markinu hreinu í kvöld. Ég vil sýna mig og sanna með Víkingum og vona að þeir séu sáttir við mig. Þetta hefur þróast ágætlega,“ sagði Gunnar Vatnhamar sem er 28 ára gamall varnarmaður eða varnartengiliður sem hefur leikið 29 landsleiki fyrir Færeyjar.