Víkingar unnu áttunda leikinn í röð

Oliver Ekroth, miðvörður Víkings, og Örvar Eggertsson, sóknarmaður HK, í …
Oliver Ekroth, miðvörður Víkings, og Örvar Eggertsson, sóknarmaður HK, í baráttu um boltann í Kórnum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingar héldu í kvöld áfram sigurgöngu sinni í Bestu deild karla í fótbolta þegar þeir lögðu HK að velli í Kórnum, 2:1.

Víkingar hafa þar með unnið fyrstu átta leiki sína og eru með 24 stig á toppi deildarinnar en HK er áfram í fjórða sætinu með 13 stig.

Víkingar tóku leikinn strax í sínar hendur og þjörmuðu vel að HK-ingum strax frá fyrstu mínútu. Sóknirnar buldu á marki nýliðanna, sérstaklega fyrstu 20 mínúturnar og þeir sluppu merkilega vel frá þeirri orrahríð.

Birnir Snær Ingason, sem er markahæstur HK-inga í efstu deild frá upphafi, átti fyrsta hættulega færi Víkings á 13. mínútu þegar hann átti skot hárfínt fram hjá stönginni hægra megin.

Víkingar sóttu áfram og á 18. mínútu átti Pablo Punyed skemmtilega sendingu inn í vítateiginn vinstra megin á Viktor Örlyg Andrason sem komst einn gegn Arnari Frey Ólafssyni, markverði HK. Arnar lokaði mjög vel á hann og varði.

Aftur var Viktor Örlygur ágengur við mark HK á 22. mínútu þegar hann skallaði rétt yfir þverslána eftir fyrirgjöf Karls Friðleifs Gunnarssonar frá hægri.

HK-ingar ógnuðu marki Víkings í fyrsta skipti af alvöru á 27. mínútu og þá hótuðu þeir að ná forystunni. Arnþór Ari Atlason átti hörkuskot af 25 metra færi og Ingvar Jónsson þurfti að hafa fyrir því að slá boltann yfir þverslána.

En mark hlaut að koma hinum megin og á 29. mínútu brutu Víkingar ísinn. Eftir hornspyrnu Pablos Punyeds frá vinstri hrökk boltinn út að vítateigslínu. Viktor Örlygur skaut í varnarmann en fékk boltann aftur og skaut þá föstu skoti með jörðinni í hægra hornið, 0:1.

Víkingar voru nærri því að bæta við forystuna á 38. mínútu þegar Logi Tómasson átti flotta sendingu frá vinstri inn á markteiginn fjær þar sem Erlingur Agnarsson var einn gegn Arnari Frey markverði sem varði glæsilega frá honum.

HK-ingar ógnuðu í snöggri sókn á 44. mínútu en Gunnar Vatnhamar bjargaði málunum í vítateig Víkings með því að kasta sér fyrir skot Örvars Eggertssonar.

Logi Tómasson átti fyrsta færi seinni hálfleiks þegar hann átti hörkuskot að marki HK af 20 metra færi á 48. mínútu og Arnar Freyr varði naumlega í horn.

Pablo Punyed og Marciano Aziz í hörðum slag í Kórnum …
Pablo Punyed og Marciano Aziz í hörðum slag í Kórnum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingar sluppu hins vegar sjálfir fyrir horn á 52. mínútu þegar Logi felldi Örvar Eggertsson sem var í góðu skotfæri rétt utan vítateigs. Ekki var ólíklegt að Logi hafi bjargað marki með brotinu og spjaldinu. HK fékk aukaspyrnu á afar vænlegum stað en Örvar skaut beint í varnarvegg Víkinga.

HK átti góðan kafla í kjölfarið og á 57. mínútu slapp Eyþór Wöhler inn í vítateig Víkings en Ingvar Jónsson varði laust skot hans vel.

Víkingar stóðu af sér nokkurn sóknarþunga HK-inga og eftir hraða sókn á 74. mínútu fengu þeir hornspyrnu. Pablo Punyed sendi boltann á stöngina fjær þar sem Nikolaj Hansen var mættur og skoraði með hörkuskalla, 0:2.

Tveimur mínútum síðar fór rauða spjaldið á loft. Karl Friðleifur Gunnarsson, hægri bakvörður Víkings, braut harkalega á Eyþóri Aroni Wöhler og uppskar brottrekstur fyrir vikið.

HK-ingar nýttu sér þetta og minnkuðu muninn á 86. mínútu. Brynjar Snær Pálsson átti skot í varnarmann, boltinn skrúfaðist upp í loftið og Eyþór Aron Wöhler var fyrstur að átta sig og skoraði með skalla af markteig, 1:2.

En þrátt fyrir talsverða pressu á lokamínútunum komust HK-ingar ekki í opin færi, Víkingar þéttu vörnina með innáskiptingum, stóðu storminn af sér og fögnuðu áttunda sigrinum.

Víkingar sýndu í kvöld að það er engin tilviljun að þeir skuli vera með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. Þeir settu HK-inga nánast í skrúfstykki í fyrri hálfleiknum og spiluðu bæði af krafti, gæðum og bullandi sjálfsöryggi. Munurinn á fyrsta og fjórða liði deildarinnar var mikill í fyrri hálfleiknum og hefði getað verið meiri í mörkum.

HK-ingar settu þá hins vegar undir talsverða pressu í seinni hálfleiknum en Víkingar náðu þessu dýrmæta öðru marki sem reyndist sigurmarkið þegar upp var staðið.

Meiðslavandræði gætu tekið toll hjá HK því breiddin er ekki mikil hjá liðinu. Atli Arnarson og Atli Þór Jónasson voru ekki með í kvöld vegna meiðsla, Ívar Örn Jónsson fór meiddur af velli í lok fyrri hálfleiks og Ívar Orri Gissurarson sem kom í hans stað entist í tvær mínútur og fór þá meiddur af velli. HK-ingar gerðu vel að koma sér aftur inn í leikinn eftir að hafa lent tveimur mörkum undir en þeir töpuðu einfaldlega fyrir betra liði í kvöld.

HK 1:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. HK fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert