Víkingur úr Reykjavík vann sameinað lið Austfirðinga, Fjarðabyggð/Hött/Leikni, í 1. deild kvenna í fótbolta í dag á Víkingsvellinum, 4:1.
Birta Birgisdóttir kom Víkingum yfir á 10. mínútu áður en Selma Dögg Björgvinsdóttir bætti við öðru marki heimakvenna á 24. mínútu. Sofia Gisella Lewis minnkaði muninn fyrir gestina á 48. mínútu áður en Selma Dögg bætti við öðru marki sínu fyrir Víkinga á 55. mínútu leiksins.
Sigdís Eva Bárðardóttir skoraði síðan fjórða mark heimakvenna á fimmtu mínútu uppbótartíma og innsiglaði þar góðan heimasigur, 4:1.
Eftir leikinn er Víkingur R. á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 12 stig eftir fjóra leiki. FHL er hins vegar í 7. sæti með þrjú stig eftir fjóra leiki.