Knattspyrnukonan Sveindís Jane Jónsdóttir getur verið afar erfið viðureignar á vellinum að sögn Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur, liðsfélaga hennar í íslenska kvennalandsliðinu.
Áslaug Munda, sem er 21 árs gömul, leikur með Breiðabliki í Bestu deildinni og háskólaliði Harvard í Bandaríkjunum, en hún og Sveindís voru einnig samherjar hjá Breiðabliki tímabilið 2020.
Áslaug Munda ræddi meðal annars um Sveindísi í Tiltalinu, hlaðvarpsþætti fótbolta.net, þar sem hún sagði Sveindísi vera hraðasta leikmann sem hún hefði mætt á vellinum.
„Ég held að hún sé hraðasti leikmaðurinn í Evrópu og hún mældist auðvitað sú hraðasta á Evrópumótinu síðasta sumar,“ sagði Áslaug Munda í Tiltalinu.
„Hún heldur bara áfram að bæta í sem er fáránlegt. Allar hlaupatölur sem við fáum frá landsliðinu, þetta er allt frekar jafnt og en svo kemur Sveindís.
Ég vona að hún byrji gegn Barcelona því hún á eftir að skína. Ef hún nær að pota boltanum fram hjá þér þá er hún farin,“ sagði Áslaug Munda meðal annars en hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella hér.