Theodór Elmar Bjarnason átti flottan leik í kvöld og var öflugur í sóknaraðgerðum KR-inga þegar liðið hafði betur gegn Fram, 2:1, í Bestu deildinni í knattspyrnu.
Hann skoraði annað mark liðsins eftir sendingu Atla Sigurjónssonar, sem skoraði sjálfur fyrra markið.
KR-ingar kræktu í langþráðan sigur og skoruðu sín fyrstu mörk í deildinni síðan í annarri umferð.
„Þetta var mjög mikilvægt og fyrri hálfleikurinn var frábær hjá okkur. Við hleyptum þeim ekki í nein færi og sköpuðum fullt af fínum sénsum og skoruðum tvö mörk.
Í seinni hálfleik verðum við pínu stressaðir, öll liðsheildin, og sendingar voru ekki að hitta. Ég held að það sé undirmeðvitundin af því að við lögðum upp með það að sækja þriðja markið.
En staðan sem við vorum komnir í gerir það að verkum að maður verður ósjálfrátt varnarsinnaður þegar maður er kominn í 2:0 og reynir að halda fengnum hlut í stað þess að sækja þriðja markið.
Okkur er alveg sama hvernig þessi þrjú stig koma, við ætluðum að sækja þau og svo byggja ofan á þessa tvo sigra sem við erum komnir með núna,“ sagði Theodór Elmar í samtali við mbl.is eftir leik.
Hinn sigurinn sem hann vísaði til er 4:3-sigur á Fylki í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í síðustu viku.