Davíð tryggði FH sigur í Eyjum

Steven Lennon fagnar eftir að hafa komið FH yfir, 2:1.
Steven Lennon fagnar eftir að hafa komið FH yfir, 2:1. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

FH vann dramatískan sigur á ÍBV, 3:2, í Bestu deild karla í fótbolta á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld.

Davíð Snær Jóhannsson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma en áður höfðu Hermann Þór Ragnarsson og Alex Freyr Hilmarsson skorað fyrir ÍBV og þeir Gyrðir Hrafn Guðbrandsson og Steven Lennon fyrir ÍBV. Hermann var rekinn af velli á 80. mínútu.

Sigurmarkið verður þó ekki skráð á Davíð en það telst vera sjálfsmark því boltinn fór í stöngina og þaðan í Guy Smit markvörð ÍBV og í netið.

FH er komið með 13 stig í fimmta sæti deildarinnar en ÍBV situr eftir í fallsæti eftir fjórða tapið í röð.

Liðin gerðu nokkrar breytingar og voru Gyrðir Hrafn, Steven Lennon, Ástbjörn Þórðarson í FH og Nökkvi Már í ÍBV í fyrsta skipti í byrjunarliðum sinna liða á tímabilinu.

Lítið var um marktækifæri í fyrri hálfleik. Eyjamönnum tókst þó að brjóta ísinn eftir rétt rúmlega 10 mínútur þegar Guðjón Ernir sendi langa sendingu inn fyrir vörn FH-inga. Jóhann Ægir, varnarmaður FH, virtist vera með stöðuna á sínu valdi, en gaf þó Hermanni Þór tækifæri á að hirða boltann inni í teig, sem hann gerði, og kláraði svo færið framhjá Sindra Kristni í marki FH-inga. 1:0 fyrir heimamönnum í ÍBV.

FH-ingar virtust vera að sigla inn í erfitt kvöld í Vestmannaeyjum og voru eflaust ekki alveg komnir í gang. Þeir unnu þó hornspyrnu á 19. mínútu sem átti eftir að koma þeim vel. Reynsluboltinn Steven Lennon tók spyrnuna og Gyrðir Hrafn stökk hæst í teignum og náði að stýra boltanum í tómt netið eftir misheppnaða tilraun til úthlaups hjá Guy Smit, markmanni Eyjamanna. Staðan orðin 1:1 og Gyrðir Hrafn með mark í sínum fyrsta byrjunarliðsleik á tímabilinu.

Fleira gerðist ekki í bragðdaufum fyrri hálfleik sem var mjög lokaður. Annað átti þó eftir að vera uppi á teningnum í síðari hálfleik.

Eftir tæplega tíu mínútna leik í síðari hálfleik komust FH-ingar yfir í leiknum. Boltinn barst þá til Gyrðis Snæs sem átti tilraun, sem var líklegast á leiðinni út fyrir hliðarlínu. Skotið hinsvegar small í öxlinni á Steven Lennon, honum að óvörum, og þaðan í netið. Heppnisstimpill yfir markinu en FH-ingum sama um það og komnir yfir, 1:2.

Rétt um tíu mínútum síðar, á 63. mínútu, jöfnuðu heimamenn með laglegu spili. Filip Valencic hafði komið inn á mínútu fyrr og átti upphafið af jöfnunarmarkinu með góðri sendingu inn á Dwayne Atkinson. Dwayne var fljótur að hugsa og kom boltanum inn á Alex Frey Hilmarsson, besta leikmann heimamanna í kvöld, sem lagði hann örugglega framhjá Sindra Kristni í marki FH-inga.

Þegar um tíu mínútur lifðu leiks kom upp atvik sem átti eftir að skipta sköpum. Eyjamenn voru þá í snarpri sókn þar sem Dwayne Atkinson, Hermann Þór og Halldór Jón voru allt í einu mættir þrjár á þrjá við miðsvæðið. Dani Hatakka, einn af FH-ingunum í stöðunni sem upp var komin, virtist ætla að missa af lestinni en greip í Hermann Þór sem reyndi að hlaupa framhjá honum.

Í atganginum milli þeirra fór hendin á Hermanni Þór í andlit Dani Hatakka sem féll. Jóhann Ingi dómari stöðvaði leikinn í efnilegri sókn heimamanna, dæmdi brot á Dani Hatakka fyrir að halda í Hermann Þór en rak jafnframt Hermann Þór útaf með sitt annað gula spjald. Jóhann Ingi mat stöðuna sem svo að Hermann Þór hefði slegið Dani Hatakka í andlitið.

Heimamenn í ÍBV, sem voru æfir vegna spjaldsins ásamt því að Jóhann Ingi hafi stöðvað sóknina til að dæma brot á FH, voru nú manni færri.

Hermann Hreiðarsson gerði í kjölfarið sóknarsinnaðar skiptingar og freistaði þess að vinna leikinn. FH-ingar gengu á lagið og skoruðu sigurmark leiksins í uppbótartíma. Kjartan Kári, sem hafði komið inn á sem varamaður, keyrði þá upp vinstri kantinn og kom boltanum inn á teiginn. Þar fékk Davíð Snær boltann, sem lék á varnarmann og skaut boltanum í stöngina og þaðan í Guy Smit, markmann Eyjamanna, og inn. 2:3 fyrir gestunum og nánast enginn tími eftir fyrir heimamenn að bregðast við.

FH-ingar fögnuðu ógurlega við lokaflautið enda dýrmæt 3 stig að taka heim úr Vestmannaeyjum. Heimamenn í ÍBV voru hinsvegar gríðarlega ósáttir með hlutskipti sín gagnvart dómarateymi leiksins.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Hermann Þór Ragnarsson sleppur inn í vítateig FH og sekúndum …
Hermann Þór Ragnarsson sleppur inn í vítateig FH og sekúndum síðar lá boltinn í marki Hafnfirðinganna, 1:0. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
ÍBV 2:3 FH opna loka
90. mín. Sverrir Páll Hjaltested (ÍBV) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert