„Fengu það sem þær áttu skilið“

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, á hliðarlínunni í kvöld.
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst við stjórna leiknum og vera sterkari aðilinn,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir dramatískan 2:1-sigur á Þór/KA í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Þróttur náði forystunni á 80. mínútu en þremur mínútum síðar jafnaði Þór/KA metin. Í uppbótartíma tryggði Þróttur sér svo sigurinn.

„Við vorum mun meira með boltann, sem ég vissi fyrir fram að yrði tilfellið, en við nýttum okkar það vel. Við vorum þolinmóð og sköpuðum okkur talsvert af mjög góðum færum og hefðum átt að vera yfir í hálfleik.

Í síðari hálfleik héldum við áfram að gera réttu hlutina og náðum loksins markinu. Það var svekkjandi að fá á sig mark svo stuttu eftir það en stelpurnar héldu áfram að berjast allt til enda og við unnum að lokum þannig að stelpurnar fengu það sem þær áttu skilið,“ hélt Chamberlain áfram.

Gæðin slík innan liðsins

Þrjú úrvals færi fóru forgörðum hjá Þrótti í fyrri hálfleik og kvaðst hann vitanlega svekktur yfir því að ekkert þeirra hafi endað með marki.

„Að sjálfsögðu, en það jákvæða var að við héldum áfram og leyfðum þeim ekki að ná yfirhöndinni. Við héldum áfram að skapa okkur færi. Við komum okkur ekki í aðstæður þar sem við fórum á taugum og gerðum bara eitthvað.

Við reyndum að framkvæma réttu hlutina allt til enda og við búum yfir slíkum gæðum innan liðsins að jafnvel þó við skorum ekki úr færunum okkar munum við samt ná inn marki að lokum.“

Tökum því fegins hendi

Þróttur er eftir sigurinn í öðru sæti deildarinnar með tíu stig eftir fimm leiki, jafnmörg og topplið Vals. Chamberlain sagði það ánægjulegt að vera við toppinn.

„Það er það en tímabilið er bara nýhafið og of snemmt að segja til um hversu þéttur pakkinn verður. Þegar komið er fram í 8.–10. umferð fer þetta venjulega að fletjast út.

En ef þetta verður enn jafn þétt á þeim tímapunkti þá væri það frábært og spennandi. Við höldum áfram að reyna að vinna leiki og krækja í stig og ef við erum í grennd við toppinn þá tökum við því fegins hendi.“

Möguleikinn fyrir hendi

Spurður hvort hann teldi það mögulegt að 4-5 lið gætu barist við toppinn allt til enda sagði Chamberlain að lokum:

„Ég held að það gæti gerst, það væri spennandi. En eins og ég segi þá er erfitt að segja til um það þar sem pakkinn hefur verið tiltölulega þéttur í upphafi undanfarinna tímabila en svo ná Valur, Breiðablik eða eitthvað annað lið 5-6 leikja sigurgöngu og slíta sig þá frá hinum liðunum.

Kannski verður þetta öðruvísi núna þar sem deildinni verður skipt og við fáum fleiri leiki. En vissulega er gott að vera á þeim stað sem við erum á og við höldum bara áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert