Hulda Björg Hannesdóttir, varnarmaður Þórs/KA, var að vonum svekkt eftir 1:2-tap liðsins fyrir Þrótti úr Reykjavík í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld, þar sem sigurmarkið Þróttar kom í uppbótartíma.
„Við byrjuðum frekar illa en komum okkur svo vel inn í leikinn rétt fyrir hálfleik. Svo var þetta bara frekar jafn leikur, hefði getað farið á báða vegu.
Mér finnst jafntefli skást úr því sem komið var þannig að það var hundfúlt að fá á sig mark í uppbótartíma,“ sagði Hulda Björg í samtali við mbl.is eftir leik.
Eins og hún kom inn á átti Þór/KA í erfiðleikum stærstan hluta fyrri hálfleiks en lék betur í þeim síðari. Hvað lagfærði liðið?
„Bara að gera hlutina einfaldari, með einföldum hlutum kemur meira sjálfstraust. Að færa boltann meira með jörðinni og þá fara þær að falla meira frá okkur og urðu smá hræddar í smástund. Við hefðum alveg getað sett mark á þær þá en svo fór sem fór,“ útskýrði Hulda Björg.
Þrátt fyrir tapið er Þór/KA í efri hlutanum og var í efsta sæti fyrir leik kvöldsins.
„Það er mjög góð tilbreyting eftir síðustu ár í þessu miðjumoði að keppa ekki upp á neitt. Þetta er mikið skemmtilegra og miðað við síðustu leiki getur allt gerst í deildinni.
Þetta er drulluskemmtilegt, maður verður bara að vera á tánum. Allir þurfa að vera á tánum, maður hefur engan tíma til að slaka á, þá gerist svona eins og gerist í dag,“ sagði hún.
Liðið er nú í þriðja sæti með níu stig, einu stigi á eftir Val og Þrótti í sætunum fyrir ofan.
„Þróttur er bara hörkulið. Við ætlum ekkert að fara grenjandi á koddann yfir þessu. Við höldum áfram. Það er bikarinn í næsta leik, við erum spenntar fyrir þeim leik og tökum hann,“ sagði Hulda Björg ákveðin að lokum í samtali við mbl.is.