Freyja tryggði Þrótti dramatískan sigur

Katie Cousins hjá Þrótti og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir hjá Þór/KA …
Katie Cousins hjá Þrótti og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir hjá Þór/KA í baráttunni í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þróttur úr Reykjavík vann hádramatískan sigur á Þór/KA, 2:1, þegar liðin áttust við í 5. umferð Bestu deildar kvenna í Laugardalnum í kvöld. Sigurmarkið kom í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Þróttur réði lögum og lofum í fyrri hálfleik og fékk þrjú úrvals færi til þess að ná forystunni. Í öll skiptin varði Melissa Lowder í marki Þórs/KA frá sóknarmönnum Þróttar.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir fékk fyrsta dauðafærið eftir aðeins átta mínútna leik. Tanya Boychuk sendi hana þá í gegn í vítateig Þórs/KA, Ólöf Sigríður tók skotið en Lowder varði vel með hægri fæti.

Tíu mínútum síðar renndi Katie Cousins boltanum til hliðar á Boychuk eftir frábært spil en skot hennar við markteiginn var beint á Lowder sem varði yfir markið.

Fimm mínútum síðar komu gestirnir boltanum í netið þegar Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu en var dæmd rangstæð, sem virtist rangur dómur.

Strax í næstu sókn átti Katla Tryggvadóttir prýðis tilraun af vítateigslínu en skotið naumlega yfir markið.

Skömmu síðar, á 26. mínútu, fékk Ólöf Sigríður besta færi leiksins þegar boltinn barst til hennar á markteig, hún náði viðstöðulausu skoti nánast inni í markinu en Lowder varði á einhvern ótrúlegan hátt áður en Hulda Björg Hannesdóttir kom boltanum af marklínunni.

Áfram var Þróttur með undirtökin en skapaði sér ekki fleiri opin færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.

Staðan því markalaus þegar flautað var til leikhlés.

Snemma í síðari hálfleik kom Ísfold Marý Sigtryggsdóttir sér í gott færi innan teigs með því að leika laglega á Sóleyju Maríu Steinarsdóttur, taka svo skot úr nokkuð þröngu færi af markteig.

Íris Dögg Gunnarsdóttir í marki Þróttar varði hins vegar skotið með hægri fæti áður en Jelena Tinna Jujundzig hreinsaði frá rétt fyrir framan marklínuna.

Þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks sá Cousins að Lowder var framarlega í markinu, reyndi að koma boltanum yfir hana af löngu færi en skotið rétt yfir markið.

Tíu mínútum fyrir leikslok braut Þróttur loks ísinn.

Boychuk slapp þá í gegn eftir glæsilega stungusendingu Kötlu Tryggvadóttur, var í miklu kapphlapi við Agnesi Birtu Stefánsdóttir og renndi boltanum undir Lowder af miklu harðfylgi.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaðiu Þór/KA hins vegar metin.

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir fékk þá boltann rétt fyrir utan vítateig, lét vaða og fast skot hennar hafnaði í netinu. Skotið var ansi nálægt Írisi Dögg, sem hefði átt að gera betur í markinu.

Tveimur mínútum fyrir leikslok fékk Sæunn Björnsdóttir tækifæri til þess að tryggja Þrótti sigurinn þegar hún náði góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Mikennu McManus en Hulda Björg bjargaði á marklínu.

Á annarri mínútu uppbótartíma tókst varamanninum Freyju Karín Þorvarðardóttur hins vegar að tryggja Þrótti sigur þegar hún skallaði boltann í netið af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu.

Með sigrinum fór Þróttur upp í annað sæti deildarinnar og Þór/KA niður í þriðja sætið.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Þróttur R. 2:1 Þór/KA opna loka
90. mín. Margrét Edda Lian Bjarnadóttir (Þróttur R.) á skot framhjá +1 Hörkuskot fyrir utan teig, af varnarmanni og aftur fyrir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert