Valur vann í kvöld 2:0-heimasigur á ÍBV í Bestu deild kvenna í fótbolta. Með sigrinum fór Valur upp í tíu stig og hristi af sér tapið gegn Stjörnunni í síðustu umferð. ÍBV er með sex stig og um miðja deild.
Valskonur voru betri stóran hluta fyrri hálfleiks og fékk Jamia Fields bestu færin. Hún skallaði framhjá af stuttu færi á 11. mínútu og á 29. mínútu skaut hún beint á Guðnýju Geirsdóttur í marki ÍBV úr fínu færi.
Guðný átti hins vegar enga möguleika þegar sú bandaríska skoraði fyrsta mark leiksins, með síðustu snertingu fyrri hálfleiks. Fields kláraði þá glæsilega í teignum, eftir að Eyjakonum mistókst að koma boltanum í burtu eftir horn. Voru hálfleikstölur því 1:0, sem var sanngjörn staða.
Þórdís Elva Ágústsdóttir var hársbreidd frá því að skora annað mark Vals á 64. mínútu þegar hún negldi í slána af löngu færi. Vildu einhverjir leikmenn Vals meina að boltinn hafi farið yfir marklínuna, en dómararnir voru á öðru máli og staðan því enn 1:0.
Sú staða breyttist í 2:0 á 76. mínútu þegar Anna Rakel Pétursdóttir skoraði glæsilegt mark. Hún fékk boltann á horni vítateigsins vinstra megin og negldi honum upp í samskeytin fjær með stórglæsilegu skoti.
Liðin náðu ekki að skapa sér góð færi eftir það og tveggja marka sigur Valsliðsins því staðreynd.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.