Keflvíkingar lyftu sér úr fallsæti og upp í fimmta sæti Bestu deildar kvenna í kvöld með því að sigra Selfyssinga, 1:0, á heimavelli sínum, gervigrasinu við Reykjaneshöllina.
Linli Tu skoraði sigurmarkið á 34. mínútu og Keflavík er komin með sjö stig í fimmta sætinu en Selfoss situr eftir í áttunda sæti deildarinnar með fjögur stig.
Fyrri hálfleikur fór heldur rólega af stað en Selfoss var framan af meira með boltann. Liðin skiptust á hálffærum en náðu aldrei að koma sér í alvöru færi.
Á 34. mínútu vinnur Sandra Voitane boltann af leikmanni Selfoss, gefur boltann á Linli Tu á miðjum vallarhelmingi Selfoss sem tekur frábært skot og skorar langt utan af velli. Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir Keflavík.
Síðari hálfleikur var mjög daufur framan af og áttu liðin engin færi fyrr en á 88. mínútu þegar Madison á gott skot fyrir utan vítateig sem Idun varði naumlega. Á 90. mínútu slapp Elfa Karen Magnúsdóttir ein inn fyrir vörn Selfoss og skaut boltanum í þverslá.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.