Langþráður sigur KR-inga

Atli Sigurjónsson skorar langþráð mark fyrir KR á 10. mínútu …
Atli Sigurjónsson skorar langþráð mark fyrir KR á 10. mínútu í kvöld og kemur Vesturbæingum yfir. Ljósmynd/Kristinn Steinn

KR-ingar unnu langþráðan sigur í kvöld þegar þeir lögðu Framara að velli, 2:1, í 8. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Framvellinum í Úlfarsárdal.

Atli Sigurjónsson og Theódór Elmar Bjarnason komu KR í 2:0 á fyrsta hálftímanum en þeir fengu síðan á sig sjálfsmark á 86. mínútu.

KR er þá komið upp úr fallsæti með sjö stig en Framarar eru með átta stig.

Framarar byrjuðu leikinn betur á fyrstu mínútunum og voru meira með boltann en KR-ingar unnu sig svo meira inn í leikinn.

Það var svo strax á 10. mínútu að Atli Sigurjónsson, leikmaður KR, fékk boltann hægra megin við vítabogann eftir sendingu frá Sigurði Bjarti Hallssyni og smellti boltanum í fjærhornið.

1:0 fyrir gestina úr Vesturbænum og Atli búinn að skora sitt fyrsta mark í sumar.

Framarar áttu svo hörkufæri á 16. mínútu þar sem Adam Örn Arnarson átti sendingu inn í teig, Þórir Guðjónsson hælaði boltann á Guðmund Magnússon sem skaut rétt fram hjá. Dauðafæri en Guðmundur hitti ekki boltann nógu vel. 

Bæði lið skiptust á að sækja og meðal annars var bjargað á línu þegar Delphin Tshiembe, varnarmaður Fram, komst í færi á 26 mínútu.

Tveimur mínútum síðar komust KR-ingar í hörkusókn þar sem Theodór Elmar Bjarnason, sem átti frábæran leik fyrir KR, sendi boltann á Kristinn Jónsson sem átti skot inn í teig á Ólaf Íshólm í marki Fram sem varði gríðarlega vel.

Á 30. mínútu náðu KR-ingar að tvöfalda forystuna þegar Theodór Elmar Bjarnason skoraði eftir sendingu frá Atli Sigurjónssyni. Atli hirti boltann af Brynjari Gauta Guðjónssyni, varnarmanni Fram, sem ætlaði að skýla boltann út fyrir endalínu, og kom sér inn í teig og sendi svo boltann á Theodór Elmar sem skoraði í fjærhornið. 2:0 fyrir KR.

Fljótlega komust KR-ingar aftur í dauðafæri þegar Atli Sigurjónsson komst í hörkufæri, fíflaði Brynjar Gauta og átti skot sem Ólafur Íshólm varði.

KR-ingar voru sterkari aðilinn það sem eftir var af hálfleiknum og fóru inn í hálfleik með verðskuldaða forystu. Atli Sigurjónsson var frábær þessar fyrstu 45 mínútur.

Í byrjun síðari hálfleiks fór Atli Sigurjónsson af velli en hann var að glíma við veikindi og leið ekki vel.

Það gerðist fátt markvert lungann úr seinni hálfleik. KR-ingar voru þéttir í öftustu línu og beittu skyndisóknum og Framarar reyndu að blása lífi í sinn leik.

Á 69. mínútu átti Tiago leikmaður Fram dauðafæri einn á móti markmanni en Simen Kjellevold varði vel í marki KR.

Það dró svo til tíðinda á 83. mínútu þegar Framarar komust í hörkufæri þar sem að Hlynur Atli Magnússon átti skalla sem Simen varði vel og Þórir Guðjónsson komst í dauðafæri en því var bjargað í horn.

Í kjölfar hornspyrnunnar reyndi Brynjar Gauti Guðjónsson að koma boltanum fyrir mark KR þar sem hann fór af KR-ingi og í netið, 1:2. Sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og allt gat gerst.

Á 89. mínútu komst Luke Rae, leikmaður KR, nánast einn í gegn og átti skot sem Ólafur Íshólm varði frábærlega. Þarna hefði Luke getað siglt sigrinum örugglega heim og tryggt langþráðan sigur KR en Ólafur sá við honum.

Mínútu síðar átti Óskar Jónsson leikmaður Fram skot í innanverða stöngina! Þarna voru Framarar svo nálægt því að jafna og eflaust hefur farið um Rúnar Kristinsson, þjálfara KR, og alla KR-inga.

Framarar reyndu hvað þeir gátu að ná jöfnunarmarkinu en allt kom fyrir ekki og KR-ingar hrósuðu langþráðum og öflugum 2:1-útisigri í Úlfarsárdalnum og eru búnir að spyrna sér úr botnsætinu.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Fram 1:2 KR opna loka
90. mín. Óskar Jónsson (Fram) á skot í stöng Óskar nánast búinn að jafna! Skot í innanverða stöngina.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert