Emil Atlason, framherji Stjörnunnar, skoraði jöfnunarmark liðsins í uppbótartíma í jafntefli gegn Fylki, 2:2, í Garðabænum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
„Við erum svekktir en að sama skapi einhvern veginn sáttir með stigið. Við erum sáttir að ná jöfnunarmarkinu í lokin.“
Markalaust var í hálfleik en Stjarnan kom af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn. Liðið komst fljótlega yfir en í kjölfarið skoruðu gestirnir tvö mörk og sneru stöðunni sér í hag.
„Þetta er eitthvað sem gerist stundum þegar maður kemst yfir. Við dettum ósjálfrátt til baka og það er bara eitthvað sem við þurfum að laga. Við þurfum að halda áfram að keyra yfir liðin.“
Stjörnumenn sýndu þó karakter eftir að hafa lent undir og náðu inn jöfnunarmarkinu alveg í blálokin, á fjórðu mínútu uppbótartímans, þegar Emil skallaði boltann í netið.
„Já það var sterkt, það er engin spurning. Við erum sáttir með stigið úr því sem komið var en á sama tíma erum við ósáttir með hvernig leikurinn þróaðist.
Það var gaman að skora og eins og ég segi þá erum við sáttir við að ná í stigið í lokin.“
Emil var að glíma við erfið meiðsli í allan vetur en segist vera að ná fullri heilsu á nýjan leik.
„Þetta er allt að koma. Það er helst leikformið sem vantar. Það er mikil samkeppni í þessu liði en mér líður vel, mér líður betur með hverjum leiknum.“