Lítil augnablik í báðum mörkum

Haley Thomas í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld.
Haley Thomas í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var fín frammistaða, en við þurftum að nýta tækifærin okkar betur,“ sagði Haley Thomas, fyrirliði ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 0:2-tap liðsins gegn Val í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld.

„Þetta voru lítil augnablik í báðum mörkum sem við missum einbeitinguna. Það er pirrandi, því ég veit við getum gert betur. Þær eru með gott lið,“ sagði hún.

Jamia Fields skoraði fyrra mark Vals í uppbótartíma í fyrri hálfleik og það breytti leiknum. „Það var vont að fá á sig mark í blálok fyrri hálfleiks. Það hefði verið allt annað að fara með 0:0 í hálfleikinn. Það var óheppilegt.“

ÍBV náði ekki að reyna almennilega á Fanneyju Ingu Birkisdóttur í marki Vals í kvöld. „Síðasti boltinn var ekki nógu góður hjá okkur í kvöld. Við vorum stundum of óþolinmóðar. Við verðum að vinna í því að velja okkur augnablikin. Við erum með nýja leikmenn frammi og þær eiga bara eftir að verða betri,“ útskýrði sú bandaríska.

ÍBV vann 3:0-heimasigur á Þrótti í síðustu umferð, en náði ekki sömu hæðum gegn Val í kvöld. „Það var á heimavelli, sem breytir miklu fyrir okkur. Það vantaði líka ákveðið drápseðli í okkur í kvöld, sem við vorum með gegn Þrótti,“ sagði Haley Thomas.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert