„Þetta er óþolandi“

Jóhann Ingi Jónsson sýnir Hermanni Þór Ragnarssyni rauða spjaldið í …
Jóhann Ingi Jónsson sýnir Hermanni Þór Ragnarssyni rauða spjaldið í kvöld. Sigurður Arnar Magnússon er lengst til hægri. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti FH í Bestu deild karla í kvöld. Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik, þar sem þó voru skoruð tvö mörk, var síðari hálfleikur bæði fjörugur og hádramatískur. Leikurinn endaði með 3:2-sigri gestanna.

Þegar tíu mínútur lifðu leiksins var staðan 2:2 og umdeilt atvik kom upp. Eyjamenn áttu þá efnilega sókn sem var stöðvuð þegar ÍBV voru að komast í góða stöðu, þar sem Dani Hatakka, leikmaður FH, hafði brotið á Hermanni Þór Ragnarsson, leikmanni ÍBV.

Í fyrstu voru Eyjamenn ósáttir við Jóhann Inga Jónsson dómara að hafa ekki gefið þeim hagnaðinn í mjög vænlegri stöðu. Það væri þó vægt til orða tekið að segja heimamenn ósátta þegar Jóhann Ingi lyfti svo síðara gula spjaldi Hermanns Þórs á loft, og þar með rauðu, þar sem hann taldi Hermann Þór hafa slegið Hatakka er sá síðarnefndi braut á honum.

Hermann Þór fór vissulega með höndina í andlitið á Dani Hatakka en deila má um hvort að hann hafi viljandi slegið Finnann eða ekki.

Sigurður Arnar Magnússon, varnarmaður Eyjamanna, átti ágætis leik í dag en var að vonum niðurlútur með niðurstöðuna eftir mikla dramatík, Eyjamönnum í óhag.

„Já, við erum drullu fúlir. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt, alveg langt því frá. Mér fannst við betri aðilinn og fannst dómarinn eiginlega fara með þetta.

Ekki nóg með það að hann [Dani Hatakka] nái að stoppa skyndisóknina okkar þar sem Halldór er mögulega að fara að skora, heldur þá fáum við rautt spjald,“ sagði Sigurður Arnar í samtali við mbl.is, og vísaði til atviksins.

Leikurinn var nokkuð jafn og bæði lið telja sig hafa átt sigurinn skilið. Annað mark FH-inga var ansi skondið og sjá mátti á Sigurði Arnari að hann var verulega pirraður að leikslokum.

„Við ætluðum bara að vinna þennan leik. Mér fannst við vera á þeirri leið en þeir eru að skjóta í innkast og einhver fær hann í hausinn og boltinn lekur inn. Og svo spjaldið og þeir skora svo manni fleiri. Við eigum að vinna þennan leik. Þetta er óþolandi,“ sagði Sigurður Arnar.

Eyjamenn hafa nú tapað fjórum leikjum í röð og eru eftir leikinn í fallsæti með 6 stig eftir að hafa byrjað mótið ágætlega.

„Við þurfum að svara fyrir þetta. Við höfum alveg séð það svartara. Það er nóg eftir. En þetta er óþolandi því við eigum ekki að taka 1 stig í dag, við eigum að taka 3,“ sagði Sigurður Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert