Barbára Sól Gísladóttir, leikmaður Selfoss, var svekkt eftir ósigurinn gegn Keflavík í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld.
Keflavík vann Selfoss 1:0 í fimmtu umferð deildarinnar í Reykjanesbæ. Með sigrinum skaust Keflavík upp í fimmta sætið en Selfoss situr sem fastast í áttunda sætinu. Það gekk lítið upp hjá Selfossliðinu fram á við í kvöld.
„Þetta er mjög svekkjandi. Við spiluðum ekki okkar besta leik og við þurfum að gera betur ef við ætlum að vinna leiki,“ sagði Barbára við mbl.is.
„Í fyrri hálfleik vantaði alla baráttu og vilja í okkur. Við komum aðeins sterkari inn í síðari hálfleik en það dugði bara ekki. Þetta voru í raun sanngjörn úrslit og við þurfum bara að mæta sterkari í næsta leik,“ sagði Barbára Sól.