Þurfum að halda svona áfram, stigin koma

Óskar Borgþórsson, leikmaður Fylkis, með boltann í leiknum í kvöld.
Óskar Borgþórsson, leikmaður Fylkis, með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var ánægður með sitt lið eftir jafntefli gegn Stjörnunni, 2:2, í Garðabænum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er hrikalega stoltur af drengjunum en það var auðvitað hrikalega fúlt að missa þetta niður í blálokin. Ég var að vonast til þess að við myndum ná að klára þetta, það var full lítið eftir þegar þeir skora.

Ég er mjög stoltur af þeim að koma til baka, jafna metin og komast yfir. Það var rosalegur kraftur í okkur, við ýttum liðinu aðeins hærra upp. Það var mikill vilji og góður andi í liðinu. Við þurfum bara að halda svona áfram, stigin koma. Það var mjög mikilvægt að tapa ekki hérna í kvöld en drengirnir áttu skilið að vinna miðað við hvað þeir lögðu í þetta. Við komum ótrauðir í næsta leik á móti ÍBV og þar ætlum við að vinna.“

Eins og Rúnar kemur inn á sýndi Fylkisliðið mikinn karakter með því að komast yfir eftir að hafa lent undir í seinni hálfleik. Það var svo Emil Atlason sem jafnaði metin fyrir Stjörnuna alveg í blálokin.

„Við erum að lenda í fullt af mótlæti, höfum byrjað tímabilið í miklu mótlæti en komum alltaf sterkir til baka. Við lærum af þessu, við erum með ungt lið í mótun og verðum að læra af þessu. Það er áskorun að vera í þessari deild og við megum ekki brotna í smá mótlæti.“

Pétur Bjarnason kom inn á sem varamaður fyrir Ólaf Karl Finsen sem varð að fara af velli vegna meiðsla. Pétur skoraði jöfnunarmarkið og lagði upp annað markið.

„Það reynir á hópinn okkar, það eru margir meiddir. Það kemur maður í manns stað og við erum að púsla liðinu svolítið saman. Við erum samt að spila vel varnarlega og nýta skyndisóknirnar vel. Pétur gerir feikivel, skorar og leggur upp mark og auðvitað vill maður sjá það frá framherjanum sínum. Hann er að vaxa, það er bara þannig.

Óli fékk eitthvað í hælinn, hann verður vonandi ekki lengi frá. Hann verður vonandi klár á sunnudaginn.“

Jöfnunarmark Fylkis var afar áhugavert og endurspeglaði að mörgu leyti baraáttuandann í Fylkisliðinu í leiknum. Þórður Gunnar Hafþórsson, vængmaður liðsins, fékk þá sendingu inn fyrir vörnina og varð að nýta alla þá orku sem hann átti eftir á tanknum til að ná til boltans og koma honum fyrir. Hann stífnaði augljóslega upp í upphafi sprettsins og haltraði eiginlega að boltanum og steinlá svo eftir að hafa sett hann fyrir á Pétur. Þórður fór svo beinustu leið af velli eftir markið og þurfti meira að segja stuðning til að komast út af.

„Það var alveg frábært. Við erum með kraftmikið, hratt lið. Það sýndi sig í þessu marki og við verðum bara að spila svona, vera hugaðir og óhræddir.“

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert