Hreinlega bugaðist eftir síðasta heimaleik

Óli Stefán Flóventsson er þjálfari Sindra.
Óli Stefán Flóventsson er þjálfari Sindra. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Óli Stefán Flóventsson er kominn í leyfi frá störfum sem þjálfari karlaliðs Sindra frá Hornafirði í knattspyrnu en hann kveðst vera að bugast vegna skorts á aðstöðu og lítils stuðnings eða skilnings af hálfu bæjarfélagsins á Höfn.

Sindri varð meistari 3. deildar á síðasta tímabili undir stjórn Óla Stefáns og leikur nú á ný í 2. deild eftir fimm ára fjarveru.

Eftir heimaleik gegn Þrótti úr Vogum í 2. deild á dögunum óskaði Óli Stefán eftir leyfi frá  störfum á meðan hann íhugaði hvort hann treysti sér til að vinna áfram við þær aðstæður sem boðið er upp á.

Óli  skýrir frá þessu í ítarlegum pistli á Facebook-síðu sinni þar sem hann gagnrýnir bæjaryfirvöld á Höfn harðlega fyrir afstöðu þeirra gagnvart félaginu og starfsemi þess og segir þar meðal annars:

Það var svo í síðasta heimaleik á móti Þrótti Vogum sem ég hreinlega bugaðist. Algjört vonleysi og skömm heltust yfir mig við það að bjóða bæði okkar íþróttafólki, og svo frábæru liði Þróttar V. þessar vallaraðstæður og umgjörð sem í boði voru þennan dag.

Það var hræðilegt að horfa á ungar stúlkur úr þriðja flokki Sindra, hjálpa félaginu við veitingasölu, sitjandi við borð úti í kuldanum í suðvestan 18 m/s, og í litlu skjóli.

Umgjörð leiksins bar það með sér að sjálfboðaliðinn er að gefast upp, ég fann það, og það sem verra er, leikmennirnir fundu það.


Pistill Óla í heild sinni:

Að bugast


Hvenær fær maður nóg af harki og of miklu neikvæðu flæði, jafnvel þó maður sé að vinna við það sem maður elskar að gera?

Hvenær þarf maður að sætta sig við að sumu er bara ekki hægt að breyta, þó maður sé að tala um íþróttastarf sem er svo mikilvægt verkfæri í heilsu og forvörnum ungs fólks, sérstaklega á tímum sem við þurfum að gera allt til að koma unga fólkinu úr tölvunni eða símanum, út í ferska loftið í hreyfingu.

Sem þjálfari knattspyrnuliðs Sindra hef ég reynt nánast allt til að benda á þá ömurlegu stöðu sem við búum við hér á okkar svæði þegar kemur að umgjörð og stuðning við starfið út frá okkar forsendum hér á Höfn í Hornafirði.

Við höfum ekki keppnisvöll yfir sjö og hálfan mánuð ársins (það eru 250 km í næsta gervigrasvöll) Grasvellir okkar slæmir enda löngu komnir á tíma og æfingasvæðið ónýtt og beinlínis hættulegt.

Við höfum hér tvo meistaraflokka (karla og kvenna) Einnig erum við með lið í flestum yngri flokkum karla og kvenna.

Aðalkostnaður knattspyrnudeildar Sindra er ferðakostnaður og laun þjálfara. Leikmenn fá ekki laun fyrir að spila fótbolta hjá okkur.

Í ferðakostnaði er átt við kostnað við ferjun leikmanna og þjálfara í leiki að heiman. (Í einu liði er 18 manna hópur og 1-2 starfsmenn) Við keyrum í alla leiki, aldrei flogið.

Miðað við taxta sem ríkið/sveitafélög setja á ekinn km í þeirra ferðum þá eru það 121 kr á km. Það þýðir í okkar tilfelli að ein ferð til Reykjavíkur, fram og til baka á einum bíl kostar um 120.000 kr.

Með 20 manna hóp í einn leik þurfum við tvo 9 manna bíla og einn fólksbíl. Ferjun í þann leik á eitt meistaraflokks lið Sindra er því um 360.000 kr. Þá er eftir allur annar kostnaður við ferðalagið eins og gisting, uppihald og fleira.

Frá 1. Janúar 2023 til 20.maí 2023 hefur meistaraflokkur karla spilað fjórtán leiki, fjóra í austurlandsmóti, fimm í Lengjubikar, tvo í Mjólkurbikar og þrjá leiki í Íslandsmótinu.

Ellefu af þessum leikjum hafa verið spilaðir að heiman en aðeins þrír hér heima á Höfn í Hornafirði.

Af átján helgum á þessu ári höfum við farið að heiman ellefu sinnum. Við höfum ferðast 7784 kílómetra og það hefur tekið okkur 93 klukkustundir og 51 mínútu að keyra þessa vegalengd. Það gera rúmlega tvær fjörutíu-tíma vinnuvikur í bíl.

Fimm af þessum ellefu útileikjum hafa verið „heimaleikir“ spilaðir að heiman af því að við höfum ekki keppnisaðstöðu á þessu tíma, hvorki hér í bæ né nærumhverfi.

Aukaferðakostnaður við þessa „heimaleiki“ að heiman er um milljón, og tími í bíl er rúmlega heil vinnuvika en það er tími sem við gætum átt með okkar fjölskyldum ef hér væri t.d gervigrasvöllur í keppnisstærð.

Um miðjan apríl áttum við heimaleik á móti Hetti/Huginn í Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Vellirnir voru að sjálfsögðu ekki klárir þannig að við þurftum að leigja Fjarðabyggðarhöllina, en hún er á Reyðarfirði, 250 km í frá Höfn. Við þurftum því að ferja leikmannahóp og starfsfólk í vinnu við leikinn(fyrir miðasölu, veitingasölu og annað), samtals 28 manns.

Í bikarkeppni þarf heimaliðið að greiða aðkomuliði helming ferðakostnaðar þannig að ofan á okkar ferðakostnað þurftum við að taka þátt í að greiða Hetti/Huginn helming af ferðakostnaði þeirra við það spila 30 km frá Egilsstöðum, við vorum jú heimaliðið.

Knattspyrnudeild Sindra bað um styrk frá sveitarfélaginu sökum þess að það kostaði deildina um 400.000 kr að geta ekki spilað hér heima hjá okkur.

Svarið var stórt NEI, ekki ein króna því það má alls ekki gefa slæmt fordæmi með því að fara að styrkja okkur í keppnisleik.

Þegar ég las svarið og nákvæmlega það sem í bréfinu stóð þá féllust mér algjörlega hendur. Ég bara trúði ekki að það væri til svona lélegt viðhorf gangvart okkar frábæra starfi, að virðing og skilningur á starfi sjálfboðaliða væri svona lítill. Það eru nefnilega sjálfboðaliðarnir sem þurfa að safna fyrir og borga þessar 400.000 krónur.

Þess má geta að Fjarðabyggð gaf okkur afslátt af leigu vallarins sem átti að vera 25 þús. kr. klukkutíminn (við þurftum fjóra tíma í leikinn). Þá afþakkaði Höttur/Huginn okkar hlut í þeirra ferðakostnaði. Það sem meira er þá tóku þeir þátt í að leigja „heimavöllinn“ með okkur. Fjarðabyggð og Höttur/Huginn styrktu okkur semsagt meira en okkar eigið sveitarfélag.

Við höfum þróað og búið til frábæra „Sindraleið“ sem snýst fyrst og síðast um að búa til leið út frá okkar forsendum. Að hugsa starfið út frá því hvað okkar skilgreindi árangur er. Úrslit í næsta leik verður aldrei mælikvarði á okkar árangur heldur liggur árangurinn í spurningunni „Hvað svo?“ í úrvinnslu úrslita er kraftur lærdóms og bætingu. Í sigrum lærum við auðmýkt í töpum lærum við á það hvernig mótlæti virkar, hvernig við getum unnið úr því sem við sjálf stjórnum.

Þarna liggur tækifærið í því að búa til betri manneskjur, og það hlýtur að vera hinn heilagi árangur.

Ég er mjög stoltur af Sindraleiðinni en það er hræðilegt að hugsa til þess að geta ekki innleitt hana alla leið af því að innviðirnir svelta.

Það var svo í síðasta heimaleik á móti Þrótti Vogum sem ég hreinlega bugaðist. Algjört vonleysi og skömm heltust yfir mig við það að bjóða bæði okkar íþróttafólki, og svo frábæru liði Þróttar V. þessar vallaraðstæður og umgjörð sem í boði voru þennan dag.

Það var hræðilegt að horfa á ungar stúlkur úr þriðja flokki Sindra, hjálpa félaginu við veitingasölu, sitjandi við borð úti í kuldanum í suðvestan 18 m/s, og í litlu skjóli.

Umgjörð leiksins bar það með sér að sjálfboðaliðinn er að gefast upp, ég fann það, og það sem verra er, leikmennirnir fundu það.

Daginn eftir leik óskaði ég eftir leyfi frá störfum á meðan ég íhuga það hvort ég treysti mér í að vinna áfram við þessar aðstæður.

Að líða eins og maður sé alltaf fyrir eða eins og starfið sé graftarkýli á bæjarfélaginu er ekki góð tilfinning fyrir hvaða starfsmann í hvaða starfstétt sem er, en nákvæmlega þannig líður mér í dag.

Ég held að starfið standi í anddyri ákvörðunar um það hvort halda eigi áfram eða hreinlega slökkva ljósin og leggja niður knattspyrnu hér í bæ.

Líklega væru margir fegnir því að vera lausir við fótboltann en það eitt er víst að sveitarfélagið verður svo sannarlega mun fátækara fyrir vikið.

Öflugt og skipulagt, heilsueflandi forvarnarstarf hverfur þá á braut og fjölskyldur sem vilja fóðra fótboltadrauma barna sinna þurfa að velja aðra búsetu en í heilsueflandi bæjarfélaginu Höfn í Hornafirði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert