Nik Chamberlain, þjálfari kvennaliðs Þróttar úr Reykjavík í knattspyrnu, kveðst ekki hafa áhyggjur af markaþurrð Ólafar Sigríðar Kristinsdóttur, framherja liðsins, sem hefur ekki enn skorað í Bestu deildinni á tímabilinu.
Ólöf Sigríður raðaði inn mörkum á undirbúningstímabilinu og lék sína fyrstu landsleiki fyrr á árinu, þar sem hún skoraði tvennu í sínum fyrsta landsleik, í 2:0-sigri gegn Skotlandi.
Í gærkvöldi fékk hún tvö úrvals færi til þess að skora í 2:1-sigri Þróttar á Þór/KA en í bæði skiptin fór hún illa að ráði sínu. Chamberlain telur Ólöfu Sigríði þó ekki skorta sjálfstraust í augnablikinu.
„Nei, ef hún væri ekki með sjálfstraust væri hún ekki að biðja um að fá boltann og koma sér í þær stöður sem hún er að koma sér í. Stundum fara framherjar í gegnum tímabil þar sem nokkurrar óheppni gætir.
Hún mun skora aftur. Hún er að koma sér í færin og tekur mjög mikið til sín, skapar pláss fyrir aðra þar sem andstæðingurinn hefur alltaf auga með henni og vill hafa sérstaklega góðar gætur á henni.
En ég hef ekki áhyggjur vegna þess að hún er að búa til færi og fá þau sjálf. Hún mun á endanum skora aftur og það verður líklegast ljótasta mark allra tíma, en það yrði bara einn af þessum hlutum,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir leikinn í gærkvöldi.