Andrea Rut Bjarnardóttir reyndist hetja Breiðabliks þegar liðið tók á móti FH í Bestu deild kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í 5. umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 3:2 sigri Breiðabliks en Andrea skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.
Leikurinn fór rólega af stað. Blikar voru meira með boltann á upphafsmínútunum, án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri.
Það var því gegn gangi leiksins þegar Mackenzie Marie George komst í færi og skoraði fyrsta mark leiksins og kom FH-ingum í 1:0 eftir tæpan hálftíma leik.
Breiðablik pressuðu FH-ingana hátt á vellinum og gáfu þeim lítið andrými til þess að byggja upp spil. Það vantaði þó herslumuninn í sóknarleik Breiðabliks sem átti nokkur færi sem runnu út í sandinn.
Eftir fyrsta mark FH jókst spennan í leiknum og opnuðust nokkur tækifæri fyrir Blika að sækja hratt á FH en náðu stelpurnar ekki að nýta sér þau fáu tækifæri.
Tíu mínútum eftir mark FH-inga átti Karitas Tómasdóttir skot sem endaði í þverslánni en Hafrún Rakel Halldórsdóttir fylgdi skotinu eftir og jafnaði leikinn fyrir Breiðablik. Staðan var því 1:1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur fór af stað af krafti en FH-ingar byrjuðu vel og héldu boltanum mikið betur en í þeim fyrri. FH-ingar sóttu hart að marki Breiðablik á upphafsmínútum seinni hálfleiks en náðu ekki að komast í nógu góð færi.
Hart var barist á miðjunni og áttu bæði lið sín tækifæri en á 74 mínútu komust Breiðablik í 2:1 eftir frábæra aukaspyrnu frá Öglu Maríu sem setti boltann í hlaupaleið Hildar Þóru sem skoraði örugglega framhjá Aldísi í marki FH.
Einni og hálfri mínútu síðar slapp Mackenzie í gegn fyrir FH eftir klaufagang í vörn Breiðablik og jafnaði leikinn í 2:2.
Í uppbótartíma skoraði Andrea Rut Bjarnardóttir eftir fyrirgjöf frá Hafrúnu og reyndust það lokatölur eftir fjörugan leik í Kópavoginum.
Breiðablik fór með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar með 9 stig en nýliðar FH sitja á botninum með 4 stig.