„Ólýsanlegt að skora mark í uppbótartíma“

Það var hart barist í Kópavogi í kvöld.
Það var hart barist í Kópavogi í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnusson

Andrea Rut Bjarnardóttir var í skýjunum með mark sitt í uppbótartíma í dramatískum sigri Breiðabliks á nýliðum FH í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Þrátt fyrir markið var Andrea raunsæ og fannst leikurinn ekki nógu vel spilaður á köflum.

„Það er geggjað að skora svona á lokamínútunum en þetta var ekki nógu góður leikur fannst mér, en við vorum bara ákveðnar að skora. Þetta var geggjuð tilfinning og ólýsanlegt að skora mark í uppbótartíma.“

Stressið tók yfir

Í fyrri hálfleik leiksins var Breiðablik með yfirhöndina og hélt boltanum vel á milli sín en FH-ingar vörðust vel með samstilltum varnarleik og góðu skipulagi. FH-ingar stilltu upp leik sínum í takt við veðrið en mikill vindur var á Kópavogsvelli. Andrea sagði það hafa verið hugsanlegt að stressið hafi tekið yfir í þeim seinni. 

„Ég veit ekki hvað breyttist milli hálfleika, gæti hafa verið stress en við vorum alltaf bara að senda boltann á vitlausa staði og bara ekki að finna flæði, en vorum ákveðnar að skora.“

Aðspurð hvernig tilfinningin er eftir fimm umferðir í Bestu deildinni sagði Andrea að nú færi boltinn loks að rúlla eftir erfiða byrjun.

„Sumarið fer ekki alveg nógu vel af stað, tvö töp, en þetta er að fara að rúlla núna, ég finn það á mér, þannig að þetta er allt í lagi byrjun en alls ekki eins og við ætluðum að byrja þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert