Í grunninn erum við iðnaðarlið

Höskuldur Gunnlaugsson reynir skot að marki Vals en er stöðvaður …
Höskuldur Gunnlaugsson reynir skot að marki Vals en er stöðvaður á síðustu stundu af fyrrverandi samherja, Elfari Frey Helgasyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er búinn að vera stígandi í þessu hjá okkur og þetta var hörkuframmistaða í dag,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Íslandsmeistara Breiðabliks eftir mikilvægan sigur á Val, 1:0, á Kópavogsvellinum í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Blikar unnu þar sinn sjötta leik í röð og eru komnir í annað sætið, sex stigum á eftir Víkingi, en þeir fóru upp fyrir Val með þessum sigri.

Leikurinn var harður og einkenndist frekar af baráttu en flottum fótbolta og Höskuldur tók vel undir það.

„Stundum er þetta þannig og við höfum oft sagt að í grunninn skilgreinum við okkur sem „iðnaðarlið“. Hitt allt kemur í kjölfarið á því. Mér fannst við samt skapa miklu meira en þeir, koma okkur í hættulegri stöður. Þeir köstuðu sér oft fyrir okkur, og svo var glæsilegt rangstöðumark tekið af okkur," sagði Höskuldur við mbl.is eftir leikinn.

„Á sama tíma fannst mér að við næðum að loka á allt sem þeir reyndu að gera, þeir fengu sáralítið af færum og við höfðum í raun frábæra stjórn á leiknum frá fyrstu mínútu," sagði Höskuldur.

Hann sagðist ekki hafa miklar áhyggjur af því í bili að Víkingar væru komnir með sex stiga forskot á toppi deildarinnar.

„Þannig er þetta núna, við einblínum bara á okkur sjálfa og getum ekki gert annað en að finna betri og betri takt hjá okkur sjálfum. Svo bíðum við bara eftir því að mæta þeim á einhverjum tímapunkti. Það er nóg eftir af mótinu svo við erum mjög sáttir við þá stöðu sem liðið er í núna.

Ertu sáttur við spilamennskuna hjá ykkur um þessar mundir?

„Já, ekki spurning. Við erum búnir að fá okkur eitt mark í síðustu fimm leikjum, erum hættulegir sóknarlega, það er gott  flæði í liðinu, við erum fastir fyrir. Við erum bara helvíti massífir."

Þið hafið þá náð að hrista af ykkur erfiða byrjun á mótinu í vor.

„Já, það var svo sem ekkert nýtt í því að við værum í vandræðum á móti HK og á móti ÍBV á útivelli. Ég hef aldrei unnið ÍBV í Vestmannaeyjum. Við erum ekki búnir að ná eins stórum og löngum kafla og í fyrra en þetta er annað mót og annað lið, og við sýndum í dag og í síðustu sex leikjum að við erum bara hörkugóðir," sagði Höskuldur Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert