Murielle Tiernan, framherji Tindastóls, var besti leikmaðurinn í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta, að mati Morgunblaðsins.
Murielle fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leik Tindastóls gegn Stjörnunni á miðvikudagskvöldið, en hún skoraði þá sigurmarkið í óvæntum sigri nýliðanna, 1:0, á Garðabæjarliðinu á Sauðárkróki.
Murielle er 28 ára gömul og er frá Ashburn í Virginíu í Bandaríkjunum. Hún lék með háskólaliði Virginia Tech til árins 2017 en hélt síðan til Svíþjóðar og spilaði eitt tímabil með Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni.
Hún kom til Sauðárkróks árið 2018 og leikur því sitt sjötta tímabil með Tindastóli. Murielle hefur verið sannkölluð markamaskína fyrir liðið, en hún skoraði 24 mörk í 14 leikjum fyrsta árið þegar liðið vann sig upp úr 2. deildinni.
Meira um Murielle Tiernan og úrvalslið fimmtu umferðar má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.