Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ákvað á fundi sínum þann 23. maí að sekta knattspyrnufélagið Vestra um 75.000 krónur vegna opinberra ummæla og myndbirtingar formanns stjórnar meistaraflokks karla, Samúels Samúelssonar, á Twitteraðgangi hans.
Samúel birti mynd af dómara leiks liðsins gegn Þórs, sem Akureyrarliðið vann 2:1, og skrifaði: „Gott að eiga góða að.“
Þar var hann að svara Óðni Svan Óðinssyni, fréttamanni á RÚV, sem er stuðningsmaður Þórs, var ánægður með sigurinn og lét það í ljós á Twitteraðgangi sínum.
Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, þótti vegið að heilindum Gunnars Odds Hafliðasonar, dómara leiksins, með myndbirtingunni og ummælunum og vísaði málinu til aga- og úrskurðarnefndarinnar.
„Um var að ræða opinber ummæli og myndbirtingu sem eru að mati framkvæmdastjóra til þess fallin að skaða ímynd íslenskrar knattspyrnu og með þeim hafi alvarlega verið vegið að heiðarleika og heilindum dómara í leik Þórs og Vestra í Lengjudeild karla, þann 6. maí,“ sagði í úrskurði nefndarinnar.
Á fundi nefndarinnar lá fyrir tölvupóstur sem barst til skrifstofu KSÍ frá Samúel, þar sem fram kom að hann axlaði fulla ábyrgð á ummælum sínum og myndbirtingu.