Mögnuð innkoma 15 ára Víkings

Kristín Erla Johnsen í KR og Linda Líf Boama í …
Kristín Erla Johnsen í KR og Linda Líf Boama í Víkingi í baráttu á Meistaravöllum í dag. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

Víkingur úr Reykjavík tryggði sér í dag sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta með 4:1-útisigri á KR í 1. deildarslag í Vesturbænum.

Hugrún Helgadóttir kom KR yfir á 14. mínútu með skoti af stuttu færi eftir langt innkast frá vinstri. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og voru hálfleikstölurnar óvæntar, því KR er í botnsæti deildarinnar og Víkingur á toppnum.

Fossvogsliðið sýndi hins vegar styrk sinn í seinni hálfleik. Linda Líf Boama jafnaði á 54. mínútu með föstu skoti í fjærhornið úr teignum.

Aðeins sjö mínútum síðar kom varamaðurinn Freyja Stefánsdóttir Víkingunum yfir, en hún er fædd árið 2007 og verður 16 ára í desember. Hún var svo aftur á ferðinni á 64. mínútu með skalla af stuttu færi og breytti stöðunni í 3:1.

Víkingar voru ekki hættir, því Hulda Ösp Ágústsdóttir skoraði beint úr horni á 85. mínútu og þar við sat.

Freyja Stefánsdóttir skoraði tvennu.
Freyja Stefánsdóttir skoraði tvennu. Ljósmynd/Víkingur R.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert