ÍR-ingar unnu í gærkvöld ótrúlegan sigur á Víkingum frá Ólafsvík, 7:0, þegar tvö efstu liðin í 2. deild karla í fótbolta mættust í Mjóddinni í Reykjavík.
ÍR gerði út um leikinn í fyrri hálfleik með því að skora fimm mörk og þá skoraði Bragi Karl Bjarkason þrennu. Sæmundur Sven Schepsky og Sæþór Ívan Viðarsson skoruðu sitt markið hvor.
Í seinni hálfleik bætti ÍR við tveimur mörkum og skoraði Bergvin Fannar Helgason þau bæði.
Bragi Karl hefur nú skorað níu mörk fyrir ÍR í fyrstu fjórum leikjum liðsins í deildinni.
Á Dalvík gerði Dalvík/Reynir jafntefli við Austfjarðaliðið KFA, 2:2. Borja López kom Dalvíkingum yfir en Marteinn Már Sverrisson og Povilas Krasnovskis sneru leiknum Austfirðingunum í hag. López skoraði aftur undir lok leiksins, úr vítaspyrnu, og jafnaði metin.
ÍR er nú með 10 stig á toppi 2. deildar, KFA er með 8 stig og Víkingur frá Ólafsvík 7 stig í þriðja sætinu en hinir fjórir leikirnir í fjórðu umferð deildarinnar fara fram í dag.