„Besta ákvörðun sem KSÍ hefur tekið var að ráða Lars Lagerbäck sem landsliðsþjálfara,“ sagði Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins, þegar rætt var um íslenska karlalandsliðið.
Ragnar, sem er 36 ára, lék 97 A-landsleiki fyrir Ísland og var í lykilhlutverki hjá liðinu sem fór á tvö stórmót, EM 2016 í Frakklandi og HM 2018 í Rússlandi.
„Ég held að Åge Hareide hafi verið besti kosturinn í stöðunni,“ sagði Ragnar en Hareide var ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í síðasta mánuði.
„Ég var spenntur fyrir Arnari Gunnlaugs líka og hef fulla trú á honum en þá komum við aftur að því að hann er Íslendingur og það breytir aðeins jafnvæginu í leikmannahópnum,“ sagði Ragnar meðal annars.
Umræðan um íslenska landsliðið hefst á 11:00 mínútu en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum.