Fylkir hafði betur gegn ÍBV, 2:1, þegar liðin áttust við í 9. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Árbænum í kvöld.
ÍBV náði forystunni eftir tíu mínútna leik með sínu fyrsta skoti í leiknum.
Eyþór Daði Kjartansson, sem kom óvænt inn í byrjunarliðið skömmu fyrir leik þegar fyrirliðinn Eiður Aron Sigurbjörnsson meiddist í upphitun, átti þá frábæra skiptingu yfir á Arnar Breka Gunnarsson á vinstri kantinum.
Arnar Breki tók glæsilega við boltanum, lagði hann út á Alex Frey Hilmarsson sem var mættur í fullkomlega tímasett hlaup rétt innan vítateigs og skoraði með viðstöðulausu skoti í nærhornið. Afar laglega útfærð sókn.
Eyjamenn stýrðu ferðinni í kjölfar marksins en um miðjan síðari hálfleikinn fékk Nikulás Val Gunnarsson dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Fylki.
Pétur Bjarnason skallaði þá boltann inn fyrir í kjölfar þess að ÍBV hreinsaði hornspyrnu stutt frá, Nikulás var einn gegn Guy Smit í marki Eyjamanna en þrumaði í hann af markteig, fékk svo boltann aftur í sig og hann fór aftur fyrir endamörk.
Færðist þá aukinn kraftur í Fylkismenn þar sem Pétur ógnaði í tvígang með hættulegum sköllum. Í síðara skiptið náði hann skalla sem fór af Richard King og aftur fyrir. Upp úr hornspyrnunni jafnaði Fylkir metin.
Arnór Breki Ásþórsson tók þéttingsfasta spyrnu frá hægri, fann Orra Svein Stefánsson á fjærstönginni, hann var grimmur og náði viðstöðulausu skoti á lofti þó Alex Freyr væri í honum og boltinn niður í nærhornið.
Skömmu eftir jöfnunarmarkið datt boltinn fyrir fætur Olivers Heiðarssonar, sem kom inn á sem varamaður fyrir Halldór Jón Sigurð Þórðarson í fyrri hálfleik, hægra megin í vítateignum.
Ólafur Kristófer Helgason í marki Fylkis varði hins vegar skot Olivers með hægri fæti.
Skömmu fyrir leikhlé fékk Emil Ásmundsson prýðis færi til þess að koma Fylki í forystu. Hann átti þá skot innan vítateigs sem fór í jörðina, Smit varði og handsamaði svo boltann í annarri tilraun.
Staðan í hálfleik var því 1:1.
Snemma í síðari hálfleik, á 54. mínútu, tókst Fylki að snúa taflinu við. Óskar Borgþórsson kom sér þá í góða skotstöðu fyrir utan teig, þrumaði að marki, boltinn fór af Sigurði Arnar og þaðan í netið, þar sem Smit var kominn í hitt hornið.
Eftir klukkutíma leik var Sverrir Páll Hjaltested nálægt því að jafna metin þegar Richard King átti flotta fyrirgjöf frá hægri en fastur skalli Sverris Páls fór naumlega framhjá markinu.
Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð en tólf mínútum fyrir leikslok minnti Óskar aftur á sig þegar hann fór illa með Felix Örn Friðriksson hægra megin, lék með boltann inn í teig og þrumaði boltanum rétt framhjá samskeytunum fjær.
Þremur mínútum fyrir leikslok komst Oliver nálægt því að jafna metin þegar hann fékk fyrirgjöf frá hægri, náði viðstöðulausu skoti á lofti fyrir miðjum vítateignum en það fór rétt yfir markið.
Nær komust gestirnir úr Vestmannaeyjum hins vegar ekki og sterkur sigur Fylkis niðurstaðan.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á þriðjudagsmorgun