FH vann HK í markaleik

Eggert Gunnþór Jónsson úr FH tæklar Örvar Eggertsson úr HK …
Eggert Gunnþór Jónsson úr FH tæklar Örvar Eggertsson úr HK í kvöld. mbl.is/Óttar

Markaleikur á slæmum grasvellinum í Kaplakrika í Hafnarfirði í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld endaði með 4:3 sigri FH á HK.

Með sigrinum kemst FH í 4. sætið með 16 stig, fyrir ofan HK sem er með 13 stig í fimmta sæti.

Fyrsta mark leiksins kom úr hornspyrnu eftir aðeins 7 mínútur. HK-ingar voru fyrstir á blað en markaskorarinn úr FH. Sindri Kristinn Ólafsson fer út úr markinu í tilraun til að hreinsa en lendir í klafsi við tvo liðsfélaga sína og boltinn fór í Jóhann Ægi Arnarsson og inn í eigið mark, 0:1. 

FH-ingar svöruðu þó fljótt fyrir sig en á 12. mínútu komst Davíð Snær Jóhannsson í gegn og keyrði að marki HK. Í stað þess að skjóta sendi hann boltann fyrir markið og þar var Gyrðir Hrafn Guðbrandsson réttur maður á réttum stað og sendi hann auðveldlega inn í mark HK, 1:1.

Aftur liðu aðeins nokkrar mínútur á milli marka en á 17. mínútu komst HK aftur yfir. Í þetta skiptið var það Arnþór Ari Atlason sem kom boltanum í netið. Eyþór Aron Wöhler kom með sendingu fyrir sem var ætluð Örvari Eggertssyni, hann missir af honum og boltinn var hreinsaður rétt fyrir utan teiginn. Þar stóð Arnþór Ari Atlason sem smurði boltann í  vinstra hornið, 1:2.

Eftir viðburðaríkar 17 mínútur fengu áhorfendur loks nokkrar mínútur til að ná sér niður áður en Úlfur Ágúst Björnsson jafnaði aftur metin fyrir FH á 37. mínútu. Kjartan Kári Halldórsson sendi boltann í gegn á Davíð Snæ sem skaut á markið, Arnar Freyr Ólafsson kemst í boltann og hann fer í stöngina en þrátt fyrir það byrja FH-ingar að fagna, á meðan var boltinn inn í miðjum teig HK en Leifur Andri Leifsson var of lengi að átta sig á því.Úlfur náði til hans á undan og hamrar boltann í netið, staðan 2:2 og þannig var hún þegar flautað var til hálfleiks.

Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, var ný búin að flauta hálfleikinn á þegar Eyþór Aron Whöler setti eitt af mörkum tímabilsins. Marciano Aziz skallaði boltann fyrir Eyþór sem þrumaði boltanum, í fyrstu snertingu, á lofti inn í mark FH og gestirnir því komnir aftur yfir í 2:3.

Deila má svo um hvort þriðja mark FH hefði átt að standa en eftir hornspyrnu skallar Gyrðir Hrafn boltann á markið, þar stendur Eggert Gunnþór Jónsson nánast ofan á Arnari í markinu og rangstöðulykt af þessari staðsetningu. Markið er skráð á Gyrðir Hrafn sem ekkert er hægt að taka af, hann gerði vel en spurning hvort Eggert hafi ekki áhrif á leikinn að standa, mögulega, rangstæður ofan á markmanninum. „Mögulega“ tekur þó ekki markið af þeim eftir á og enn og aftur var leikurinn jafn, 3:3. 

Á 70. mínútu kom Úlfur Ágúst Björnsson FH í forystu í fyrsta skipti í leiknum. Hann gerði það með aðstoð varnamanna HK en Kjartan Kári komst í gegn eftir mistök í öftustu línu HK og sendi boltann fyrir markið. Davíð Snær var í teignum en boltinn fór í hælana hans og á Úlfar sem setti hann í netið og klárar leikinn fyrir FH, 4:3.

FH tók alveg yfir leikinn eftir þetta mark, HK átti ágæta kafla í leiknum en sigurmarkið tók þá alveg úr jafnvægi og leiknum lauk 4:3 fyrir fimleikafélaginu.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á þriðjudagsmorgun

FH 4:3 HK opna loka
90. mín. Ástbjörn Þórðarson (FH) á skot sem er varið Auðvelt fyrir Arnar, beint á hann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert