„Þetta var þvílíkur iðnaðarsigur. Það var jafnteflislykt af þessu en geggjað að ná að troða inn einu eftir hornspyrnu,“ segir Ægir Jarl Jónasson, hetja KR, eftir 1:0-sigur Vesturbæinga á Stjörnunni í Bestu deild karla í kvöld.
Ægir Jarl skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu, með skalla eftir hornspyrnu Jóhannesar Kristins Bjarnasonar. Með sigrinum lyfti KR sér upp í níunda sæti deildarinnar en liðið er með tíu stig.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en KR-ingar ívið sterkari í þeim síðari.
„Við vorum að skapa meira í seinni og það er kærkomið að klára þetta á heimavelli,“ segir Ægir sem var ánægður með að hafa skorað eina mark leiksins.
Markaskorarinn glotti þegar hann var spurður um ástandið á vellinum en Meistaravellir hafa oft verið grænni og fegurri á þessum tíma árs. „Hann er allur að koma til. Vonandi verður hann betri þegar það kemur aðeins meiri sól.“
KR-ingar hafa nú unnið þrjá leiki í röð, tvo í deild og einn í bikar en höfðu áður tapað fimm deildarleikjum í röð. Ægir Jarl segir allt á réttri leið í Vesturbænum:
„Við erum að byggja ofan á eitthvað núna.“