„Þetta er skítamark sem við eigum ekki að fá á okkur,“ segir Stjörnumaðurinn Eggert Aron Guðmundsson í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap Garðbæinga gegn KR í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Eina markið í leiknum skoraði Ægir Jarl Jónasson með skalla eftir hornspyrnu.
„Þetta á bara ekki að gerast. Við erum búnir að vera sterkir í föstum leikatriðum, bæði í sókn og vörn,“ bætir Eggert við.
KR-völlurinn hefur oft litið betur út á þessum tíma árs en Eggert vildi ekki skella skuldinni á erfiðar vallaraðstæður:
„Hann er bara eins og hann er. Við vissum að þetta yrði svona og getum ekkert kennt vellinum um.“
Stjörnumenn eru með sjö stig eftir níu leiki, í 10. sæti og sú staða þykir ekki ásættanleg í Garðabænum.
„Það er samt búinn að vera stígandi í leik okkar. Stigataflan segir ekki hvernig okkur er búið að ganga en sjö stig er ekki nógu gott.“