Við héldum ekki haus

Ómar Ingi í hálfleik í kvöld.
Ómar Ingi í hálfleik í kvöld. mbl.is/Kristinn Steinn

Ómar Ingi Guðmundsson og leikmenn hans í HK þurftu að sætta sig við tap í Kaplakrika þar sem þeir mættu FH í kvöld. Leikurinn fór 4:3 fyrir FH og HK var í forystu eða jafnir FH allan leikinn þar til 20 mínútur voru eftir.

Á 70. mínútu skoruðu FH-ingar sigurmarkið en þangað til var HK yfir eða jafnir þeim allan leikinn. 

„Mér finnst við ekki hafa verið nógu skynsamir, stuttu eftir að við komumst yfir, í öll skiptin sem við komumst í forystu. Við höldum ekki haus og skipuleggjum okkur ekki alveg eftir að við komumst yfir svo þetta var ekki nógu gott. 

Við eigum hörkuleik eftir nokkra daga á móti ÍBV, við byrjuðum mótið klárlega vel og við erum staðráðir í því að koma sterkt til baka þó að við höfum tapað síðustu tveim leikjum. Þegar við hittumst á morgun þá erum við byrjaðir að gera okkur klára fyrir leikinn í eyjum og verðum tilbúnir þegar hann kemur,“ sagði Ómar Ingi eftir leikinn

Arnar Freyr Ólafsson, markmaður HK, fór inn í teig þegar HK fékk aukaspyrnu þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum í stöðunni 4:3 fyrir FH. „Hann bað um að fara inn í teig um daginn og fékk það ekki þá en ég kallaði á hann núna.“  Arnar Freyr náði ekki að koma inn marki og þurfti að taka á sig gult spjald til að stöðva skyndisókn FH.

HK er nú með 13 stig í 5. sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert