Maður var bara trylltur í augnablikinu

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, átti flottan leik í dag við erfiðar aðstæður á útivelli á móti Keflavík í Bestu deildinni í fótbolta. Liðið hefði viljað sækja þrjú stig suður með sjó, en allt kom fyrir ekki og leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Höskuldur hafði þetta að segja um leikinn við mbl.is: „Við virðum stigið, það er klisjukennt að virða stigið en við vorum búnir að stjórna leiknum og fengum fínar stöður og færi. Við hefðum viljað taka þrjú stig en þetta var erfiður leikur. Keflvíkingar vörðust eins og ljón og gerðu okkur erfitt fyrir en það er bara áfram gakk."

Í lok leiks var Gísli Eyjólfsson samherji Höskuldar að komast í hörkufæri þegar dómari leiksins flautaði af og þá hópuðust leikmenn Blika að dómaranum, enda ósáttir við að fá ekki að klára færið áður en lokaflautið gall.

Hvað fannst Höskuldi um þetta atvik? „Maður var bara trylltur í augnablikinu en svo geturðu ekkert gert í því. Hann var ekkert að reyna að koma í veg fyrir dauðafæri hjá okkur, hann var bara aðeins of fljótur á sér. Smá reynsluleysi en hann lærir af þessu,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert