Markalaust jafntefli í roki og rigningu

Gísli Eyjólfsson hefur átt afar gott tímabil.
Gísli Eyjólfsson hefur átt afar gott tímabil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflavík og Breiðablik mættust í níundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Leikið var á heimavelli Keflavíkur og enduðu leikar með markalausu jafntefli, 0:0.

Leikurinn einkenndist af miklu hvassviðri og rigningu og náðu leikmenn ekki að sýna sínar bestu hliðar í kvöld.

Eftir leikinn er Breiðablik í 3. sæti deildarinnar með 22 stig, fimm stigum á eftir toppliði Víkings Reykjavíkur. Keflavík komst upp úr botnsætinu en liðið er með jafnmörg stig og ÍBV en situr í 11. sæti á betri markatölu en Eyjamenn.

Breiðablik var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik án þess að skapa sér nein alvöru færi. Vörn Keflavíkur var mjög öflug og skipulögð með miðverðina tvo Frans Elvarsson fyrirliða og Gunnlaug Fannar Guðmundsson fremsta í flokki.

Völlurinn var erfiður viðureignar og áttu bæði lið oft á tíðum erfitt með að senda boltann meðfram jörðinni þar sem grasið var ójafnt á sumum stöðum eftir erfiðan vetur.

Á 21. mínútu kom hættulegasta sókn Blika þegar Davíð Ingvarsson fékk boltann vinstra meginn inn í teig við endamörk Keflvíkinga og átti sendingu þvert fyrir markið sem fór framhjá öllum og var síðan hreinsuð í burtu. 0:0 í annars tíðindalitlum hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði líka rólega þar sem bæði lið voru að reyna að fóta sig á vellinum en Blikar voru meira með boltann.

Á 56.mínútu átti Gísli Eyjólfsson, leikmaður Blika, sendingu inn fyrir á Viktor Karl Einarsson og Viktor reyndi að vippa boltanum yfir Mathias Rosenörn í marki í Keflavíkur en Mathias náði að verja í horn.

Á 78.mínútu kom svo besta færi leiksins og það áttu gestirnir.

Færeyski sóknarmaðurinn Klæmint Olsen fékk sendingu fyrir mark Keflavíkur og einn fyrir opnu marki náði Klæmint að skófla boltanum í þverslána og yfir. Dauða-dauðafæri og þarna hefðu Blikar átt að komast yfir!

Það voru svo Keflvíkingar sem voru nálægt því að stela sigrinum á 86.mínútu þegar sending á fjær rataði á varamanninn Jóhann Þór Arnarsson sem skaut yfir úr algjöru dauðafæri. Heimamenn óheppnir og gestirnir stálheppnir!

Breiðablik átti svo gott færi í lokin þegar Viktor Karl Einarsson átti gott skot á sem Mathias Rosenörn í marki Keflavíkur varði vel.

Athyglisvert atvik átti sér stað í lok leiks þegar var verið að flauta leikinn af.

Það var komið framyfir þriggja mínútna uppbótartíma þegar sending kom inn fyrir vörn Keflavíkur á Gísli Eyjólfsson, leikmann Blika. Hann virtist vera að ná boltanum í hörkufæri, þá flautaði dómari leiksins, Gunnar Oddur Hafliðason, leikinn af.

Leikmönnum Breiðabliks fannst þeir vera rændir upplögðu færi og hópuðust að dómaranum og Gísli Eyjólfsson fékk gult spjald fyrir mótmæli.

Gunnar Oddur átti annars mjög góðan leik og leyfði leiknum mikið að fljóta.

En leiknum lauk með markalausu jafntefli í leik sem bæði lið hefðu getað stolið sigrinum. Keflvíkingar eflaust sáttir við að halda hreinu annan leikinn í röð og ná fyrsta stigi á heimavelli í sumar.

Í liði heimamanna voru miðverðirnir Frans Elvarsson og Gunnlaugur Fannar Guðmundsson mjög öflugir ásamt hægri bakverðinum Oleksii Kovtun sem var sterkur í mörgum einvígum. Sindri Þór Guðmundsson var sprækur í sóknaraðgerðum Keflvíkinga.

Höskuldur Gunnlaugsson var mjög öflugur liði gestanna úr Kópavogi hvort sem það var í varnar- eða sóknaraðgerðum Blika, hann átti hægri vænginn. Einnig voru Gísli Eyjólfsson og Viktor Karl Einarsson mjög góðir í kvöld.

Keflavík 0:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Ernir Bjarnason (Keflavík) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert