Orri Sigurjónsson er einn harðasti Þórsari sem um getur og hefur hann spilað í rúman áratug með meistaraflokki Þórs á Akureyri. Hann hafði vistaskipti í haust og skipti yfir í Fram í Reykjavík. Í dag mætti hann með félögum sínum á Greifavöllinn á Akureyri til að etja kappi við KA.
Orri var vel stemmdur í leiknum og stóð fyrir sínu þrátt fyrir að KA hafi unnið 4:2. Staðan var 2:2 lengi vel í seinni hálfleiknum en KA skoraði tvisvar í lokin og kláraði þannig leikinn.
Orri var fyrst spurður um vistaskiptin og lífið í Reykjavík.
„Lífið er bara gott. Mér finnst ég hafa fallið eins og flís við rass inn í þetta lið. Ég og kærastan mín erum saman þarna fyrir sunnan og allt hefur gengið vel. Ég var búinn að vera alla mína tíð hjá Þór og það gat allt eins orðið þannig að ég yrði þar um ómuna tíð. Mér fannst ágætt að fá nýjar áskoranir er sáttur með að hafa tekið þá ákvörðun að breyta til.“
En að leiknum í dag. Þú hlýtur að hafa verið gríðarlega spenntur að mæta KA hérna í dag, gömlu erkióvinunum.
„Það var aukafiðringur í mér. Það var gott að koma í bæinn og góð tilfinning. Ég hef ekkert komið hingað frá því á jólunum. Svo þegar KA-menn voru að baula á mig úr stúkunni í fyrri hálfleik þá var það bara gaman. Þá kom smá aukakikk inn í þetta.“
Þetta var jafn og spennandi leikur og 2:2 frá 55. mínútu þar til KA komst í 3:2 skömmu fyrir leikslok. Það var mikil spenna í þessu og eftir að þið jöfnuðuð í 2:2 þá var lið Fram líklegra liðið til að skora.
„Það var draugfúlt að tapa leiknum og mest klaufalegt hjá okkur að leyfa KA að jafna strax eftir fyrra markið okkar. Það sló okkur aðeins út af laginu og KA var að þjarma að okkur fram að hálfleik. Svo var þetta bara áfram jafnt allan seinni hálfleikinn. Við erum bara þannig lið að við viljum sækja og fá þrjú stig. Undanfarið hefur það ekki gengið og okkur hefur verið refsað. Það gerðist líka í dag þegar við vorum að reyna að sækja öll stigin. KA fékk full mikið pláss og þeir nýttu sér það. Eðlilega svíður þetta en svona er boltinn“ sagði Orri Sigurjónsson að lokum.