Tryggvi magnaður er Valur stöðvaði Víking

Pablo Punyed í baráttunni í kvöld.
Pablo Punyed í baráttunni í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Valur varð í kvöld fyrsta liðið til að fá stig gegn Víkingum í Bestu deild karla í knattspyrnu í sumar en liðið fór í Víkina og vann frábæran sigur, 3:1.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð fjörugur fengu bæði lið tækifæri til að skora fyrsta markið. Staðan var þó markalaus í hálfleik en seinni hálfleikurinn var einn allra besti hálfleikur sumarsins.

Tryggvi Hrafn Haraldsson, leikmaður Vals, fékk fyrsta færi leiksins strax á þriðju mínútu en Ingvar Jónsson varði þá vinstri fótar skot hans frá vítateigslínu. 

Nikolaj Hansen fékk fyrsta færi Víkings á níundu mínútu en hann átti þá frábæran skalla eftir fyrirgjöf Loga Tómassonar frá vinstri. Skallinn var mjög fastur úr miðjum teignum en Frederik Schram, markvörður Vals, varði frábærlega.

Það var svo Aron Jóhannsson sem fékk besta færi fyrri hálfleiksins eftir góða sókn gestanna. Kristinn Freyr Sigurðsson fékk boltann þá í teig Víkings og lagði hann út á Aron sem kom á ferðinni. Aron lét vaða frá vítateigslínu en mjög fast skot hans fór í þverslánna og niður. Ingvar var sigraður í markinu en sem betur fer fyrir Víkinga endaði boltinn ekki í netinu.

Á 56. mínútu fékk Erlingur Agnarsson leikmaður Víkings svo hörkufæri. Arnór Borg Guðjohnsen átti þá frábæra sendingu á Erling sem var aleinn í miðjum teignum, en var of lengi að athafna sig svo Frederik Schram fékk tíma til að koma sér af línunni og loka á hann.

Eftir klukkutíma leik kom svo loksins fyrsta markið. Kristinn Freyr Sigurðsson færði boltann þá út til hægri á Adam Ægi Pálsson sem setti hann upp að endamörkum þar sem Birkir Már Sævarsson var í góðu hlaupi. Birkir setti boltann fyrir markið, á hárréttan stað, þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson kom á ferðinni og kláraði auðveldlega úr miðjum teignum.

Einungis tveimur mínútum síðar tvöfölduðu gestirnir svo forystuna og aftur var Tryggvi á ferðinni. Aron Jóhannsson fékk boltann á eigin vallarhelmingi eftir innkast og smellti honum blint upp í vinstra hornið. Þar var Tryggvi fyrstur á boltann, fór inn á völlinn, framhjá Karli Friðleifi og Oliver Ekroth áður en hann smellti boltanum með grasinu í fjærhornið, alveg út við stöng.

Nánast í næstu sókn fékk Valur svo hornspyrnu. Tryggvi setti boltann á fjærsvæðið þar sem Hólmar Örn Eyjólfsson reis hæst og skallaði boltann af stuttu færi í þverslánna. Mátti þar engu muna að gestirnir næðu þriggja marka forystu.

Topplið Víkings var þó ekki af baki dottið og á 68. mínútu minnkaði Nikolaj Hansen muninn. Helgi Guðjónsson fékk þá boltann vinstra megin í teignum eftir misheppnað úthlaup Frederiks og setti hann aftur inn í markteiginn þar sem Hansen skoraði af stuttu færi.

Valsmenn náðu þó aftur tveggja marka forystu á 73. mínútu. Karl Friðleifur missti boltann þá yfir sig og Tryggvi stakk hann af í kapphlaupi. Tryggvi fór með boltann upp að endamörkum og lagði hann út í teiginn þar sem Aron Jóhannsson kom askvaðandi og setti boltann undir Ingvar Jónsson af stuttu færi.

Víkingur minnkaði muninn í uppbótartíma. Erlingur Agnarsson átti þá fyrirgjöf sem hafði smá viðkomu af Davíð Erni Atlasyni sem fipaði Frederik í markinu, sem missti boltann í gegnum klaufalega í gegnum klofið á sér.

Nær komust heimamenn þó ekki og reyndust 3:2 lokatölur leiksins. Þrátt fyrir tapið er Víkingur enn á toppi deildarinnar með 22 stig. Valur er nú með 22 stig, fimm stigum á eftir Víkingi, líkt og Breiðablik sem gerði markalaust jafntefli við Keflavík í kvöld.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Víkingur R. 2:3 Valur opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert