KA og Fram mættust í fyrsta leik dagsins í 9. umferð Bestu deildar karla í dag. Það var sólskin og hlýtt þegar leikurinn fór fram en sterkur sunnanvindur setti mark sitt á leikinn. Leikurinn var jafn og í járnum lengi vel en KA kreisti fram 4:2-sigur með tveimur mörkum á lokakaflaunum
KA-menn voru sterkari aðilinn lengi vel í fyrri hálfleik en spil þeirra gekk erfiðlega í hvössum sunnanvindinum. KA skapaði eitt og eitt færi en Framarar voru samt hættulegri. Endrum og sinnum opnaðist allt hjá KA eftir ákafar sóknir þeirra og Framarar náðu að geysast fram. Þeir voru hársbreidd frá því að skora á 25. mínútu en Kristijan Jajalo varði þá á undraverðan hátt frá Aroni Jóhannssyni. Nokkru síðar lá boltinn í marki KA. Skot frá Fred fór í stöng KA-marksins og hrökk þaðan í Guðmund Magnússon og inn.
Þetta var sem köld vatnsgusa framan í KA-menn, sem hresstust svo um munaði og þeir uppskáru víti skömmu síðar. Úr vítinu skoraði Hallgrímur Mar Steingrímsson. KA var svo í stórsókn út hálfleikinn og þurfti Ólafur Íshólm Ólafsson í marki Fram að sýna tilþrif til að forða fleiri mörkum. Staðan í hálfleik var 1:1 en KA-menn voru komnir á bragðið og þeir mættu vel gíraðir inn í seinni hálfleik.
KA sótti ákaft í byrjun seinni hálfleiks og áður en varði þá var komið mark. Bjarni Aðalsteinsson skallaði í mark eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar. Fram svaraði strax með marki úr vítaspyrnu sem Fred tók. Staðan var þá orðin 2:2 eftir tíu mínútur í seinni hálfleiknum.
Svo var bara stál í stál lengi vel og lítið um færi en einhvern veginn lá það samt í loftinu að annað liðið myndi skora sigurmark. Fram komst nálægt því í tvígang þegar styttist í leiknum en boltinn rataði ekki á mark KA.
Það var svo KA sem skoraði næstog þar var á ferðinni Jakob Snær Árnason. Hann fékk skot í sig og boltinn breytti um stefnu og fór í markið. Jakob Snær bætti svo við öðru marki í uppbótatíma og var það glæsimark eftir skyndisókn. Jakob setti boltann bara í skeytin eftir skyndisókn og góðan undirbúning frá Harley Willard.
KA vann 4:2 og anda nú margir Akureyringar léttar eftir erfiðan kafla hjá KA. Nú er Fram búið að tapa þremur leikjum í röð og illa gengur að halda mörkunum í skefjum.
Lið norðanmanna sýndi ágæta takta í þessum leik og munaði miklu um að Elfar Árni Aðalsteinsson er aftur kominn á fulla ferð. KA hefur reynt ýmsa menn í stöðu fremsta manns en enginn hefur haft sömu gæði og eignleika og Elfar Árni í þeirri stöðu. Jakob Snær Árnason kom svo sterkur inn og tók við keflinu af Elfari Árna og skoraði hann tvívegis. Miðvörðurinn Dusan Brkovic var frábær í öftustu línu og Norðmaðurinn Kristoffer Forgaard Paulsen stóð sig vel við hlið hans. Bakverðir KA voru oft mjög framarlega og nýttu Framarar sér það með skyndisóknum upp kantana.
Í liði Fram voru það skyndisóknirnar sem sköpuðu mesta hættu og voru þeir skeinuhættir. Bestur hjá fram var samt markvörðurinn Ólafur Íshólm Ólafsson en hann sýndi stundum snilldartakta í markinu og gat lítið gert í mörkum KA. Kollegi hans í marki KA, Kristijan Jajalo, þurfti minna að sýna sig. Hann átti þó líklega bestu vörslu dagsins um miðjan fyrri hálfleikinn þegar hann varði skot frá Aroni Jóhannssyni á undraverðan hátt.
KA fór upp í 5. sætið með sigrinum en Fram er enn í 9. sætinu. Næstu leikir liðanna eru á föstudaginn. Þá fá Framarar Keflvíkinga í heimsókn en KA fer í Garðabæ og mætir Stjörnunni.